Nemendum fækkar um 1,6%
Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 44.949 haustið 2010 og hafði fækkað um 435 nemendur frá fyrra ári, eða 1,6%. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendum ofan grunnskóla fækkar á milli ára frá endurskoðun nemendaskrár Hagstofu Íslands haustið 1997. Á framhaldsskólastigi stunduðu 25.090 nemendur nám og fækkaði um 4,8% frá fyrra ári og á viðbótarstigi voru 990 nemendur. Á háskólastigi í heild voru 18.869 nemendur. Þar fjölgaði nemendum um 4,5%, þar af um 52,7% á doktorsstigi.

Um 95% 16 ára ungmenna sækja skóla
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2010 er 95%, sem er sama hlutfall og haustið 2009. Á milli áranna 2008 og 2009 hafði orðið talsverð fjölgun nemenda. Um 88% 17 ára nemenda sækja skóla, sem er fækkun um tvö prósentustig frá fyrra ári. Um 82% 18 ára ungmenna stunda nám, og fjölgaði um eitt prósentustig í þeim aldursflokki.

Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á Austurlandi og Norðurlandi eystra eða 96%, en fæstir á Vestfjörðum (91%) og á Suðurnesjum (92%).

Jafnframt fækkar eldri nemendum á framhaldsskólastigi frá fyrra ári. Þannig fækkar nemendum í öllum 5 ára aldursflokkum frá 15 til 54 ára frá hausti 2009. Sú fækkun helst í hendur við umtalsverða fækkun nemenda í öldungadeildum (45,5%) og fjarnámi (18,8%) á framhaldsskólastigi frá hausti 2009.

 

Rúmlega þriðjungur nemenda á framhaldsskólastigi leggur stund á starfsnám
Um 66.0% nemenda á framhaldsskólastigi stunda nám á bóknámsbrautum en 34.0% eru í starfsnámi. Hlutfall nemenda í starfsnámi er mun hærra meðal karla en kvenna, eða 39,0% á móti 29,1% hjá konum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðasta áratug, þegar það hefur verið 33,8% til 38,5%.

Mikil fjölgun doktorsnema
Nemendum á doktorsstigi hefur fjölgað ár frá ári. Þeir voru 14 haustið 1997 en eru 478 haustið 2010. Nemendum á doktorsstigi hefur fjölgað í yngri aldurshópunum sem bendir til þess að fleiri fari í doktorsnám fljótlega að loknu meistaranámi. Frá 1998 til 2006 voru doktorsnemar flestir á aldrinum 30-34 ára en frá 2007 er aldurshópurinn 25-29 ára stærstur. Konur hafa verið í meirihluta meðal doktorsnema frá árinu 2001 og eru 58,2% þeirra haustið 2010. Tæplega fjórðungur (23,4%) doktorsnema eru útlendingar, flestir frá öðrum Evrópulöndum.

Tveir af hverjum þremur nemendum á meistarastigi eru konur
Nemendum á meistarastigi hefur fjölgað ár frá ári. Þeir voru 383 haustið 1997 en eru 4.243 haustið 2010. Tveir af hverjum þremur nemendum á meistarastigi eru konur, eða 66,7% nemenda. Nemendum í námi til grunnsprófs á háskólastigi, t.d. Bachelor gráðu eða diplóma gráðu hefur fjölgað síðustu tvö ár eftir að hafa fækkað lítillega á árunum 2004-2008. Nemendur sem stunda nám til grunnprófs hafa aldrei verið fleiri eða 14.005. Þá voru 143 nemendur í stuttu hagnýtu námi á háskólastigi og hefur fækkað lítillega síðustu ár.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki.

Talnaefni:
     Yfirlit
     Háskólar
     Framhaldsskólar