FRÉTT MENNTUN 28. MAÍ 2010


Nemendur á öllum skólastigum rúmlega 107 þúsund
Á skólaárinu 2009-2010 er heildarfjöldi nemenda á landinu öllu 107.012. Á yfirstandandi skólaári eru skráðir 18.699 nemendur á leikskólastigi, 42.929 nemendur á grunnskólastigi, 26.364 nemendur á framhaldsskólastigi og 19.020 á skólastigum ofar framhaldsskólastigi. Nemendum á Íslandi hefur fjölgað um 1.529 frá árinu áður, eða um 1,4%.

Um 95% 16 ára ungmenna sækja skóla
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2009 var 95% sé miðað við öll kennsluform (dagskóla, kvöldskóla og fjarnám). Undanfarin þrjú ár hefur skólasókn 16 ára ungmenna á landsvísu haldist óbreytt og verið 93%. Haustið 2009 er skólasókn 16 ára komin í 95% og hefur því hækkað um tvö prósentustig frá fyrra ári. Aldrei fyrr hafa jafn margir 16 ára unglingar sótt framhaldsskóla.

Nokkur munur er á skólasókn 16 ára ungmenna eftir landshlutum. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á Höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og á Vestfjörðum en þar er skólasókn 97% og hefur aldrei verið hærri. Hins vegar sækja hlutfallslega fæstir skóla á Suðurnesjum en þar sækja 92% 16 ára ungmenna  skóla.

Það er áhugavert að bera saman skólasókn 16, 17 og 18 ára ungmenna með það fyrir augum að sjá hversu hátt hlutfall nemenda heltist úr lestinni eftir fyrstu árin í framhaldsskóla. Tölur Hagstofunnar sýna að haustið 2009 er hlutfall 17 ára ungmenna í skólum landsins 90% en hlutfall 18 ára er 81%. Skólasókn hefur því einungis lækkað um 3 prósentustig hjá þeim sem voru 16 ára 2008 og eru 17 ára haustið 2009 og um 12 prósentustig hjá þeim sem voru 16 ára 2007 og eru 18 ára 2009. Þetta er óvenju lítil fækkun nemenda milli ára. Hlutfallslega fleiri hafa hætt námi undanfarin ár. Skólaárið 2008-2009 voru 85% 17 ára ungmenna í skóla og 75% 18 ára ungmenna. Má leiða líkum að því að fleira ungt fólk sæki skóla á yfirstandandi skólaári vegna ástandsins í atvinnumálum.
 


Langflestir nemendur í félagsvísindum, víðskipta- og lögfræði
Nemendur á háskóla- og doktorsstigi haustið 2009 voru 18.051 og hefur fjölgað um 1.107 eða 6,5% á milli ára. Þar af eru 37% (6.661) skráðir í greinar sem falla undir félagsvísindi, viðskipta- og lögfræði. Næst flestir eða 16% eru nemendur á námssviðum sem falla undir menntun og kennarafræði hvers konar. Til samanburðar er hlutfall nemenda sem leggur stund á nám í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð 9% en í raunvísindum, stærðfræði og tölvunarfræði eru 8% nemenda á þessum skólastigum.

Konur eru 63% allra nemenda á háskóla- og doktorsstigi. Þær eru fjölmennari en karlar á öllum námssviðum utan verkfræði og raunvísinda. Í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð eru konur 34% nemenda en í raunvísindum, stærðfræði og tölvunarfræði eru konur 38% nemenda. Flestar eru konur á námssviðum sem falla undir heilbrigði og velferð eða 87% allra nemenda. Í menntun og kennslufræðum eru konur 82% allra nemenda.

 

 

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki.

Talnaefni
     Yfirlit
     Framhaldsskólar
     Háskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.