FRÉTT MENNTUN 18. ÁGÚST 2004

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um skólasókn íslenskra ungmenna á aldrinum 16-29 ára eins og hún var á miðju haustmisseri 2003.

Um 92 prósent 16 ára ungmenna stunda nám  
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2003 var 92% sé miðað við öll kennsluform (þ.e. dagskóla, kvöldskóla, fjarnám og utanskóla nemendur) og hefur hún aukist um tæplega 1 prósentustig frá fyrra ári. Skólasókn 16 ára nemenda hefur aldrei mælst hærri og hefur nú tvö ár í röð mælst yfir 90%. Sé litið yfir lengra tímabil má glöggt sjá að æ fleiri unglingar halda skólagöngu áfram að lokinni skólaskyldu og hefja framhaldsskólanám. Árið 1992 voru 85% 16 ára skráðir í dagskóla framhaldsskólanna en nú, haustið 2003, eru nemendur í framhaldsskólum 91% árgangsins sé eingöngu miðað við dagskólanemendur. Aukningin er því sex prósentustig á þessum áratug sem liðinn er.

Strax að loknu fyrsta ári framhaldsskólans dregur mjög úr skólasókn. Skólasókn 17 ára ungmenna haustið 2003 er 82% en við 18 ára aldur eru 74% þessa árgangs skráð í dagskóla. Þá hefur skólasókn lækkað um 17 prósentustig sé miðað við 16 ára aldurshópinn. Við 20 ára aldur er skólasókn ungmenna komin niður í 52% árgangsins í dagskólanámi. Skólasókn hefur þó aukist umtalsvert í öllum aldursflokkum síðastliðinn áratug eins og sjá má af mynd 2.

Lækkandi skólasókn á fyrstu árum framhaldsskólans má að einhverju leyti skoða sem vísbendingu um brottfall. Þó verður að hafa í huga að minnkandi skólasókn með hækkandi aldri skýrist af fjölmörgum þáttum, m.a. því að sumir nemendur hafi verið brautskráðir úr skóla. Aðrir hafa hugsanlega tekið sér tímabundið hlé frá námi. Við 24 ára aldur eru 36% árgangsins við nám í dagskólum framhalds- og háskóla og 13% við 29 ára aldur.

Fleiri stúlkur sækja skóla en piltar
Þegar skólasóknartölur eru skoðaðar með tilliti til kynskiptingar má sjá að skólasókn 16 ára pilta á landsvísu er 90% en 16 ára stúlkna 94% en þá er miðað við öll kennsluform. Mismunur á skólasókn kynjanna er mestur við 25 ára aldur en þá er munurinn 11 prósentustig. Athyglisverður er sá munur sem sjá má á kynjunum við 19 og 20 ára aldur. Við 19 ára aldur dregur skyndilega sundur með kynjunum og er skólasókn kvenna þá 9 prósentustigum meiri (skólasókn karla 66% en kvenna 75%). Við 20 ára aldurinn er skólasókn kynjanna hins vegar jöfn (56%). Um tvítugt eru nemendur að jafnaði að útskrifast úr framhaldsskólum og því má leiða að því líkur að stúlkur hafi þá þegar útskrifast og sumar þeirra tekið sér tímabundið hlé frá námi á meðan piltarnir eru ennþá skráðir í skóla. Eftir tvítugt, þegar komið er á háskólaaldur, dregur aftur sundur með kynjunum og helst sá munur að jafnaði nálægt 9 prósentustigum, allt til 29 ára aldurs.

Svipað mynstur má sjá í skólasókn kynjanna þegar litið er til einstakra landsvæða þótt ekki sé það einhlítt. Munur á skólasókn kynjanna við 16 ára aldur er hverfandi á höfuðborgarsvæði utan Reykjavíkur og á Suðurlandi. Á öðrum landsvæðum er hann hins vegar umtalsverður stúlkum í vil og allt að 14 prósentustig þar sem munurinn er mestur en það er á Austurlandi. Þar fýsir pilta síður í skóla en stúlkur.

Skólasókn 16 ára er mest á höfuðborgarsvæði utan Reykjavíkur
Skólasókn 16 ára ungmenna var mest á höfuðborgarsvæði utan Reykjavíkur eða 94% sé miðað við öll kennsluform og næst mest á Norðurlandi eystra þar sem hún var 92%. Lægst er skólasókn 16 ára á Austurlandi 89%. Landsmeðaltal er 92% þegar miðað er við öll kennsluform og 91% sé eingöngu miðað við dagskólanemendur. Frávik frá landsmeðatali eru hverfandi og ekkert landssvæði sem sker sig áberandi úr nú, líkt og fyrir ári síðan, þegar skólasókn 16 ára á Suðurnesjum var 8 prósentustigum undir landsmeðaltali. Athygli vekur að skólasókn 16 ára ungmenna á Suðurnesjum hefur aukist umtalsvert á aðeins einu ári eða um 7 prósentustig og er nú 90%. 

Brottfall nemenda úr framhaldsskólum 2002-2003 var 19,3%
Brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri. Hagstofa Íslands hefur skoðað brottfall nemenda úr framhaldsskólum með því að bera saman fjölda nemenda í skólum tvö haustmisseri, haustin 2002 og 2003, að frádregnum brautskráðum nemendum. Niðurstöðurnar sýna að brottfall nemenda frá hausti 2002 til hausts 2003 var 19,3%, sem jafngildir því að 4.100 nemendur hafi hætt eða tekið sér hlé frá námi. Brottfall er minnst meðal nemenda í fullu námi í dagskóla, 12,4% en mest meðal nemenda í hlutanámi í fjarnámi, 54,2%. Brottfall er meira meðal karla en kvenna og meira í starfsnámi en í bóknámi. Þá er brottfall mest við upphaf náms í framhaldsskólum. Brottfall var rúmum þremur prósentustigum hærra fyrir fimm árum síðan, eða 22,3%. Rúmlega helmingur brottfallshópsins fyrir fimm árum síðan hefur hafið nám á ný. Þar af tók um fjórðungur  hópsins aðeins árshlé frá námi. Nánar er fjallað um brottfall nemenda í framhaldsskólum í nýjasta hefti Hagtíðinda um skólamál: "Brottfall nemenda úr framhaldsskólum 2002-2003".

Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir fæðingarári og lögheimili þann 1. desember 2003 og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum árgangi á sama tíma.

Talnaefni  (Sjá: Skólasókn eftir kyni, aldri og landsvæðum 1999-2003)

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.