FRÉTT MENNTUN 05. JÚNÍ 2020

Um 40.400 manns á aldrinum 25-64 ára tóku þátt í símenntun árið 2019, eða 21,6% landsmanna á þessum aldri. Þátttaka í símenntun jókst lítillega frá síðasta ári en hefur farið minnkandi frá árinu 2015 þegar 27,5% landsmanna tóku þátt í símenntun. Fleiri 25-64 ára einstaklingar sóttu skóla árið 2019 en árin á undan á meðan þátttaka í öðrum tegundum símenntunar, svo sem námskeiðum og annarri fræðslu með leiðbeinanda utan skóla (t.d. ráðstefnum), var svipuð og árið 2018.

Þátttaka í símenntun mest á meðal háskólamenntaðra
Þátttaka í símenntun var mest á meðal háskólamenntaðra en 27,5% háskólamenntaðra landsmanna á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu árið 2019. Hlutfallið var lægra á meðal þeirra sem höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun, rúmlega 20%, og lægst meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, rúm 11%.

Konur voru um 56% allra á aldrinum 25-64 ára sem sóttu sér fræðslu, eða 22.700 talsins, en karlar voru 17.700. Þátttaka í símenntun var mest í aldurshópnum 16-24 ára, 63,5%, sem skýrist af því að stór hluti aldurshópsins stundar framhaldsskóla- og háskólanám. Minnst þátttaka var hins vegar í aldurshópnum 55-74 ára, eða 11,6%.

Fleiri sóttu símenntun utan skóla
Alls sóttu 24.900 manns á aldrinum 25-64 ára sér fræðslu eða endurmenntun utan skóla árið 2019. Þar af sóttu 12.800 manns námskeið og 12.900 fengu aðra fræðslu með leiðbeinanda, sóttu t.d. ráðstefnu. Um 19.500 manns á þessum aldri voru í skóla. Skólanemum á þessum aldri hefur fjölgað talsvert síðustu ár en þeir voru 16.700 árið 2016.

Flestir þátttakendur í símenntun eru starfandi
Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í símenntun voru starfandi á vinnumarkaði, eða 34.800 manns. Í þessum hópi var þátttaka í símenntun utan skóla meiri en innan. Þannig sóttu rúm 14% símenntun utan skóla á móti 8,5% sem voru í skóla. Sé litið á hlutfallstölur sóttu 23,3% atvinnulausra 25-64 ára símenntun, 22,1% þeirra sem voru utan vinnumarkaðar en 21,5% starfandi fólks. Formleg menntun í skóla er talin með en margir þeirra yngri, sem eru utan vinnumarkaðar, eru námsmenn.

Mikil þátttaka miðað við önnur Evrópulönd
Ísland er í fimmta sæti 35 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun árið 2019. Aðeins í Svíþjóð (34,3%), Sviss (32,3%), Finnlandi (29,0%) og Danmörku (25,3%), er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandsríkjanna 28 er 11,3%.

Um gögnin
Tölurnar eru fengnar úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin er samevrópsk rannsókn sem byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem hafa lögheimili á Íslandi. Í úrtak ársins 2019 völdust af handahófi 19.959 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða reyndust búsettir erlendis var nettóúrtakið 19.533 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 12.085 einstaklingum sem jafngildir 61,9% svarhlutfalli. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. Sami einstaklingur getur bæði verið á námskeiði, í annarri fræðslu og í skóla en hver einstaklingur er aðeins talinn einu sinni í heildartölum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.