Starfsfólk við uppeldi og menntun leikskólabarna sem lokið hefur einhverri uppeldismenntun var meira en helmingur (54,0%) allra starfsmanna við uppeldi og menntun í leikskólum í desember 2012. Á sama tíma sóttu 19.615 börn leikskóla á Íslandi og hafa þau aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum fjölgaði um 456 frá desember 2011, eða um 2,4%. Um 83% barna á aldrinum 1-5 ára voru skráð í leikskóla og hefur það hlutfall ekki verið hærra.

Lengri viðvera leikskólabarna
Viðverutími leikskólabarna hefur verið að lengjast og fleiri börn dvelja í 7 tíma eða lengur á dag í leikskóla en fyrir ári síðan. Í desember 2012 dvöldu tæplega 92% leikskólabarna í leikskólanum í 7 tíma eða lengur dag hvern borið saman við tæp 44% leikskólabarna árið 1998.

 

Börnum af erlendum uppruna fjölgar áfram
Í desember 2012 voru 2.062 börn með erlent tungumál að móðurmáli (10,5% leikskólabarna) og hafa aldrei verið fleiri. Börnum með erlent móðurmál fjölgaði um 8,1% frá desember 2011. Eins og undanfarin ár var pólska algengasta erlenda móðurmálið og höfðu 783 börn pólsku að móðurmáli. Pólskumælandi leikskólabörnum fjölgaði um 125 frá fyrra ári (19,0%). Þá fjölgaði leikskólabörnum sem hafa lithásku að móðurmáli um 18 (21,2%) á sama tíma og enskumælandi börnum fækkaði um 13 (8,4%).

Í desember 2012 voru 1.031 leikskólabörn með erlent ríkisfang (5,3% barna) og hafði fjölgað um 19,5% frá fyrra ári. Fjölgunin er aðallega tilkomin vegna fjölgunar barna frá Austur-Evrópu (136 börn) og frá Eystrasaltslöndunum (21 barn). Frá árinu 2008 hefur börnum með erlent ríkisfang fjölgað um 450 (77,5%).

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkar milli ára
Í desember 2012 nutu 1.124 börn stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika; 5,7% leikskólabarna. Það var fækkun um 108 börn frá fyrra ári þegar 6,4% leikskólabarna nutu stuðnings.

Uppeldismenntuðu starfsfólki fjölgar
Í desember 2012 störfuðu 5.668 manns í 4.947 stöðugildum við leikskóla á Íslandi. Frá fyrra ári fjölgaði starfsmönnum um 2,8% og stöðugildum um 3,1%. Frá árinu 1998, þegar Hagstofan hóf að birta tölur um leikskóla, hefur menntuðum leikskólakennurum fjölgað úr 926 í 1.878 (102,8%). Leikskólakennarar voru 36,3% starfsmanna sem komu að uppeldi og menntun barna í desember 2012 samanborið við 29,1% starfsmanna árið 1998. Þá hefur orðið mikil fjölgun á starfsmönnum sem hafa lokið annarri uppeldismenntun, s.s. þroskaþjálfun, diplomanámi í leikskólafræðum, leikskólaliðanámi, grunnskólakennaranámi og öðru háskólanámi þar sem lögð er áhersla á uppeldisfræði. Þessum hópi starfsmanna fjölgaði úr 165 árið 1998 í 921 árið 2012.

 


Körlum fjölgar áfram í hópi leikskólastarfsmanna
Frá desember 2010 til sama tíma 2012 fjölgaði körlum í starfi á leikskólum um 103 (40,7%), á sama tíma og konum fjölgaði um 77 (1,5%). Einkum fjölgaði körlum sem starfa við uppeldi og menntun barnanna.

Leikskólum fækkar og aukinn samrekstur leikskóla og grunnskóla
Í desember 2012 voru starfandi 262 leikskólar á Íslandi og hafði þeim fækkað um þrjá frá árinu áður. Í kjölfar laga um leikskóla og grunnskóla frá árinu 2008 er orðið algengara að leikskólar og grunnskólar og jafnvel tónlistarskólar séu reknir sem ein skólastofnun með einum stjórnanda. Í desember 2012 átti slíkur samrekstur sér stað í um 30 skólastofnunum. Þetta rekstrarform er algengara í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni en í stærri sveitarfélögum þó svo að undantekningar séu til frá því.

Talnaefni