FRÉTT MENNTUN 25. FEBRÚAR 2010


Grunnskólanemendum fækkar frá síðasta skólaári
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 42.929 haustið 2009, auk þess sem 89 börn stunduðu nám í 5 ára bekk í 5 skólum. Grunnskólanemendum hefur fækkað um 582 frá síðastliðnu skólaári eða um 1,3%. Gera má ráð fyrir að nemendum grunnskóla haldi áfram að fækka næstu árin því þeir árgangar sem munu hefja grunnskólanám eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi. Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, 44.809. Frá þeim tíma hefur grunnskólanemendum fækkað um 1.880 nemendur. Þessar tölur koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem hefur safnað upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert síðan haustið 1997.

Áframhaldandi fjölgun grunnskólanemenda með erlent móðurmál
Grunnskólanemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli fjölgar ár frá ári og hafa aldrei verið fleiri, þrátt fyrir aukinn brottflutning frá landinu. Haustið 2009 eru 2.314 grunnskólanemendur skráðir með erlent móðurmál eða 5,4% grunnskólanema. Haustið 2008 höfðu 2.069 grunnskólanemar erlent móðurmál, eða 4,8% nemenda. Eins og undanfarin ár eru flestir pólskumælandi, 760 talsins, og hefur fjölgað um 127 milli ára, eða um rúm 20%. Nemendum sem hafa ensku að móðurmáli fjölgar um 20, úr 154 í 174 börn.

Nemendum í einkareknum grunnskólum fjölgar
Alls starfa 175 grunnskólar á landinu, sem er fjölgun um einn skóla frá fyrra ári. Nýir skólar tóku til starfa á árinu en aðrir voru lagðir niður eða sameinaðir öðrum skólum. Fjölmennustu grunnskólar landsins eru Árbæjarskóli í Reykjavík með 713 nemendur og Lágafellsskóli (681) og Varmárskóli (677) í Mosfellsbæ. Fámennasti grunnskólinn er Finnbogastaðaskóli á Ströndum þar sem 3 nemendur stunda nám. Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 130 nemendur nám. Einkaskólarnir eru 10 talsins með 702 nemendur. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997.

Nemendum á hvert stöðugildi kennara fjölgar lítillega
Undanfarin ár hefur fjöldi nemenda á hvern kennara farið stöðugt lækkandi frá því að vera 11,4 nemendur á hvern kennara árið 1998 í það að vera 9,1 nemandi á hvern kennara haustið 2008. Nú hækkar hins vegar fjöldinn aðeins og er 9,2 nemendur á hvern kennara haustið 2009.

Sé þetta hlutfall skoðað út frá stöðugildum kennara, voru 13,3 nemendur að baki hverju stöðugildi kennara árið 1998. Með árunum hefur þetta hlutfall farið lækkandi og haustið 2008 voru 9,3 nemendur á hvert stöðugildi kennara. Haustið 2009 hækkar þetta hlutfall í fyrsta skipti í mælingum Hagstofunnar og eru nú 9,6 nemendur á hvert stöðugildi kennara.

 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.