FRÉTT MENNTUN 28. FEBRÚAR 2008


Grunnskólanemendum fækkar frá síðasta skólaári
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.802 haustið 2007, auk þess sem 124 börn stunduðu nám í 5 ára bekk í 5 skólum. Grunnskólanemendum hefur fækkað um 73 frá síðastliðnu skólaári eða um 0,2%. Gera má ráð fyrir að nemendum grunnskóla fækki næstu árin því þeir árgangar sem eru að hefja grunnskólanám eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi. Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, 44.809.

Þessar tölur koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert. Hagstofan hefur safnað þessum upplýsingum síðan haustið 1997 og er þetta því í ellefta skipti sem þessar tölur eru birtar. Þegar eldri tölur eru bornar saman við tölur frá hausti 2007 má sjá að nemendum í 1.-10. bekk grunnskóla hefur fjölgað um 1.484 frá árinu 1997, sem er 3,5% fjölgun.

Nemendum í einkaskólum hefur fjölgað um tæplega 100 frá fyrra ári
Skólaárið 2007-2008 eru 9 einkaskólar starfandi á grunnskólastigi með 664 nemendur. Það er fjölgun um 92 nemendur frá síðastliðnu skólaári. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997. Nú stunda 54,4% fleiri nemendur nám í einkareknum grunnskólum en haustið 2004, þegar nemendur voru fæstir á síðasta áratug. Tveir nýir einkaskólar í anda Hjallastefnunnar tóku til starfa síðastliðið haust og fjölgaði því einkaskólum um tvo.

Alls starfa 173 grunnskólar á landinu og er það óbreyttur fjöldi frá fyrra ári. Nýir skólar tóku til starfa á árinu en aðrir voru lagðir niður eða sameinaðir öðrum skólum. Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 146 nemendur nám.

Um 4 prósent grunnskólanemenda hafa erlent móðurmál
Grunnskólanemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli fjölgar ár frá ári. Haustið 2007 er 1.731 grunnskólanemandi skráður með erlent móðurmál eða 4,0% grunnskólanema. Flestir eru pólskumælandi, 482 talsins, og búa tæplega 60% þeirra á landsbyggðinni.

Færri nemendur eru á hvert stöðugildi kennara
Alls störfuðu 4.990 starfsmenn við kennslu og skólastjórnun haustið 2007 og eru 9,5 nemendur á bak við hvert stöðugildi kennara. Nemendum á stöðugildi kennara hefur fækkað ár frá ári, en haustið 1998 voru 13,3 nemendur á hvern kennara.


 

Að meðaltali eru 18,4 nemendur í bekk en þá eru sérskólar og sérdeildir ekki taldar með. Bekkjarstærð vex með hækkandi aldri nemenda. Að meðaltali eru fæstir nemendur í 1. bekk, eða 16,5, en flestir nemendur í 9. bekk, eða 19,7. Ekki eru til tæmandi upplýsingar um fjölda kennara sem kenna hverjum bekk en í sumum tilvikum er stórum bekkjardeildum kennt af fleiri en einum kennara. Þá hefur ýmiss konar samkennsla árganga farið vaxandi og er ekki eingöngu stunduð í fámennum skólum á landsbyggðinni.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.