FRÉTT MENNTUN 06. MARS 2007

Hagstofa Íslands hefur birt hefti í ritröðinni Hagtíðindi um nemendur í grunnskólum haustið 2006. Í ritinu kemur meðal annars fram að að minnsta kosti fimmti hver nemandi í 10. bekk grunnskóla stundaði jafnframt nám á framhaldsskólastigi haustið 2006, alls 906 nemendur. Þá eru rúmlega 100 nemendur í 9. bekk grunnskóla skráðir í áfanga í framhaldsskólum.

Tæplega 10 þúsund grunnskólanemendur nutu sérkennslu eða fengu stuðning við nám skólaárið 2005-2006, 22,5% allra grunnskólabarna.

Tæplega fimmtungur (19,5%) kennslustunda á grunnskólaferlinum er í íslensku og 16,1% kennslustunda er varið til stærðfræðikennslu.

Skólaárið 2006–2007 eru 173 grunnskólar starfandi á landinu og hefur þeim fækkað um fjóra frá árinu áður.

Nemendur í grunnskólum voru 43.875 haustið 2006 og hafði fækkað um 461 frá hausti 2005. Grunnskólanemendum hefur fækkað um tæplega 1.000 frá því að þeir voru flestir haustið 2003. Reikna má með að nemendum fækki enn meira á næstu árum því þeir árgangar sem eru að hefja grunnskólanám næstu árin eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi.

Um 3,7% grunnskólanemenda hafa annað móðurmál en íslensku, flestir pólsku. Alls hafa 343 nemendur pólsku sem móðurmál.

Tæplega 10 nemendur eru á bak við hvert stöðugildi kennara en meðalbekkjarstærð er 18,5 nemendur.

Nemendur í grunnskólum haustið 2006 - útgáfa

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.