FRÉTT MENNTUN 05. OKTÓBER 2017

Nemendum ofan grunnskóla fækkaði frá hausti 2014
Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 42.589 haustið 2015 og fækkaði um 1.346 nemendur frá fyrra ári, eða 3,1%, aðallega vegna fækkunar nemenda á framhaldsskólastigi. Alls sóttu 19.086 karlar nám og 23.503 konur. Körlum við nám fækkaði um 874 frá fyrra ári (-4,4%) en konum um 472 (-2,0%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 23.085 nemendur nám og fækkaði um 4,4% frá fyrra ári. Á viðbótarstigi voru 866 nemendur og var fjöldi nær óbreyttur. Á viðbótarstigi er nám sem bætist ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi. Á háskólastigi í heild voru 18.638 nemendur og fækkaði um 1,5% frá haustinu 2014.

Nemendum í námi til doktorsgráðu fækkaði um 10,4% og voru 465, en þeim hafði fjölgað ár frá ári frá 2011. Tæpur þriðjungur (31,6%) doktorsnema eru erlendir ríkisborgarar og hefur farið fjölgandi. Um helmingur þeirra kemur frá öðrum Evrópulöndum. Nemendum í námi til fyrstu háskólagráðu fækkaði einnig. Hins vegar fjölgaði nemendum í námi til meistaragráðu um 62 (1,4%) og voru 4.347 haustið 2015.

Fleiri 16 ára drengir og færri 16 ára stúlkur stunda nám
Skólasókn, þ.e. hlutfall af aldurshópi 16 ára nemenda í framhaldsskóla var 95,4% haustið 2015, sem er sama skólasókn og haustið 2014. Haustið 2015 sóttu 95,5% 16 ára drengja skóla, einu prósentustigi fleiri en haustið 2014 og 95,4% 16 ára stúlkna, 0,9 prósentustigum færri en 2014. Þótt munurinn á skólasókn kynjanna sé hverfandi þá vekur þessi breyting athygli því skólasókn 16 ára stúlkna hefur verið meiri en drengja á hverju ári a.m.k. síðan árið 1991.

Skólasókn kvenna er meiri en karla í öllum árgöngum 17-29 ára og einnig meðal háskólanemenda 30 ára og eldri. Ef eingöngu er litið á nemendur á framhaldsskólastigi, eru karlar hlutfallslega fleiri en konur á aldrinum 20-39 ára.

Færri 17-29 ára stunda nám
Skólasókn haustið 2015 var minni en haustið 2014 í öllum árgöngum 17-29 ára. Við 18 ára aldur var skólasókn komin niður í 80,9% og tæpur helmingur 20 ára nemenda sótti skóla (48,7%) en skólasókn 20 ára hefur ekki verið minni síðan árið 1999. Hugsanlega á gott atvinnuástand hér hlut að máli þannig að ungt fólk stundi vinnu í stað þess að leggja stund á nám.

Rúmlega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi í starfsnámi
Rúmlega einn af hverjum þremur (34,2%) nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2015 en 65,8% stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðastliðinn áratug en var 36-38% á árunum 2000-2005. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2015 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 41,4% á móti 26,8% hjá konum.

Vinsælustu brautirnar á framhaldsskólastigi voru stúdentsprófsbrautir en 4.865 stunduðu nám á náttúrufræðibraut og 4.320 á félagsfræðibraut. Af starfsnámsbrautum voru nemendur flestir á listnámsbraut, 536 talsins, 477 stunduðu sjúkraliðanám og 448 voru í grunndeild rafiðna.

Langflestir háskólanemendur stunda nám í félagsvísindum, viðskipta- og lögfræði
Flestir háskólanemendur haustið 2015 stunduðu nám í greinum sem falla undir félagsvísindi, viðskipta- og lögfræði eða 36,7% nemenda. Þetta hlutfall hefur verið svipað síðan fyrir aldamót. Næstflestir, eða 14,1%, voru nemendur á námssviðum sem falla undir heilbrigði og velferð, 12,9% lærðu hugvísindi og listir og 12,2% stunduðu nám á sviði menntavísinda. Þá lögðu 11,6% nemenda stund á raunvísindi, stærðfræði eða tölvunarfræði og 8,5% nemenda námu verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð.

Vinsælustu námsleiðir á háskólastigi teljast til viðskipta og stjórnunar, en 1.393 nemendur stunduðu nám á þessum námsleiðum. Þá voru 1.234 við nám í tölvunarfræði, 1.114 í sálfræði og 1.056 í lögfræði. Á öðrum námsleiðum voru færri en eitt þúsund nemendur.

 

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri, lögheimili og uppruna ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki. Nemendur eru flokkaðir eftir uppruna samkvæmt innflytjendagrunni Hagstofu Íslands.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.