FRÉTT MENNTUN 28. NÓVEMBER 2011


Skólasókn er mest meðal einstaklinga sem eru fæddir erlendis af íslenskum foreldrum en minnst meðal innflytjenda
Hlutfall 16 ára landsmanna fæddra 1988-1994 sem eru skráðir í framhaldsskóla 2004-2010 er 93,5% að meðaltali. Einstaklingar án erlends bakgrunns eru langstærsti bakgrunnshópur nemenda og sækja að meðaltali 94,5% þeirra skóla við 16 ára aldur. Hlutfallslega flestir sækja skóla úr hópi einstaklinga sem eru fæddir erlendis en eiga íslenska foreldra; 95,9% þeirra sækja skóla við 16 ára aldur. Tæplega 90% 16 ára sem eru fæddir á Íslandi en eiga annað foreldri af erlendum uppruna sækja framhaldsskóla og 85,0% þeirra sem eiga annað foreldri af erlendum uppruna en eru fæddir erlendis. Tæplega 83% annarrar kynslóðar innflytjenda sækja framhaldsskóla við 16 ára aldur og 74,6% innflytjenda. Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Einungis um tugur annarrar kynslóðar innflytjenda er í hverjum árgangi og því eru töluverðar sveiflur á skólasókn þeirra á milli ára.

Við 18 ára aldur sækja 77,6% þessara árganga skóla. Hlutfallslega fæstir innflytjendur eru í skóla við 18 ára aldur, rúmlega 50%, og hefur mest kvarnast úr þeirra hópi frá 16 ára aldri. Rúmlega þrír af hverjum fjórum annarrar kynslóðar innflytjendum er í skóla við 18 ára aldur. Eins og við 16 ára aldur er skólasókn mest meðal þeirra sem eru fæddir erlendis en eiga íslenska foreldra; 83,1%.

 

Á vef Hagstofunnar hafa einnig verið birt gögn um alla nemendur í framhaldsskólum og háskólum árin 1997-2010 eftir uppruna nemenda. Þær tölur sýna svipaða mynd og lýst er hér að ofan, hvort sem litið er á 16-20 ára eða 16-29 ára aldurshópinn. Hlutfallslega fæstir innflytjendur sækja framhaldsskóla og háskóla en flestir þeirra sem fæddir eru erlendis af íslenskum foreldrum.

Um gögnin
Þessar tölur hefur Hagstofa Íslands unnið úr skrá yfir nemendur í framhaldsskólum og háskólum sem fæddir eru árin 1988-1994 og flokkað eftir uppruna samkvæmt innflytjendagrunni Hagstofunnar. Í nemendaskrá eru allir nemendur í framhaldsskólum og háskólum á Íslandi, iðnnemar á samningi sem og nemendur erlendis á námslánum LÍN. Til að ákvarða uppruna nemenda eru notaðar upplýsingar um fæðingarland, uppruna foreldra og foreldra þeirra.

Nemendahópurinn er skilgreindur út frá einstaklingum fæddum 1988-1994 sem eru búsettir á Íslandi við 16 ára aldur og þeim hópi er fylgt eftir næstu árin. Ekki er gerð tilraun til þess að kanna afdrif þeirra sem ekki koma fram í nemendaskrá og því má ekki túlka þessar tölur sem brottfallstölur. Einstaklingar sem ekki koma fram í nemendaskrá kunna að hafa verið brautskráðir, flust úr landi eða látist.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.