FRÉTT MENNTUN 25. SEPTEMBER 2012

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um nemendur í grunn- og framhaldsskólum sem lærðu erlend tungumál skólaárið 2011-2012. Tölurnar eru birtar í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september.

Meðal niðurstaðna má nefna að spænskunemar í grunnskólum hafa aldrei verið fleiri en hlutfall framhaldsskólanema sem læra spænsku fellur í fyrsta sinn í gagnasöfnun Hagstofunnar.

Fleiri grunnskólanemendur læra ensku
Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og það tungumál sem flestir nemendur læra. Skólaárið 2011-2012 lærðu 33.937 börn ensku í grunnskólum, eða 80,1%, og hefur hlutfallið aldrei verið hærra frá því að Hagstofa Íslands hóf að birta tölur um fjölda barna sem leggja stund á erlend tungumál árið 1999. Kennsla í ensku hefst oftast í 4. bekk en þó er enska kennd í 1.-3. bekk í fjölmörgum skólum. Síðastliðið skólaár lærðu 4.976 börn í 1.-3. bekk ensku eða tæplega fjögur af hverjum tíu (39,2%) börnum í þessum bekkjum. Fimm árum fyrr, skólaárið 2006-2007, lærðu 1.879 börn í þessum árgöngum ensku, eða 14,8%.

Þetta er í samræmi við þróunina í Evrópu, þar sem kennsla í erlendum tungumálum hefur verið að færast neðar í grunnskólann. Kennslustundum sem varið er til kennslu í erlendum tungumálum í Evrópu hefur þó ekki fjölgað að sama skapi. Á Íslandi hefur vikulegum kennslustundum sem varið er til kennslu í ensku og dönsku í öllum bekkjum grunnskólans fjölgað úr 32,9 skólaárið 2000-2001 í 34,9 skólaárið 2011-2012.

Tæplega þúsund nemendur í 1.-6. bekk læra dönsku
Nemendur hefja nú flestir dönskunám í 7. bekk, eða við 12 ára aldur. Vert er að geta þess að 956 nemendur yngri en 12 ára lærðu dönsku á síðastliðnu skólaári.

Í mörgum skólum geta nemendur sem hafa kunnáttu í norsku eða sænsku, valið þau tungumál í stað dönsku. Á síðasta skólaári lærði 108 barn sænsku frekar en dönsku og 77 börn lærðu norsku.

Spænskan sífellt vinsælli í grunnskólum landsins
Grunnskólanemendum sem læra þrjú tungumál hefur farið fækkandi frá skólaárinu 2001-2002 þegar þeir voru flestir (1.656 nemendur, 3,8% nemenda) þar til nú. Síðastliðið skólaár lærðu 1.022 grunnskólanemendur þrjú tungumál, 2,4% nemenda. Þriðja tungumál er yfirleitt kennt sem valgrein í íslenskum grunnskólum. Á síðasta skólaári lærðu 624 nemendur spænsku, 255 nemendur frönsku og 252 nemendur þýsku.

 

Rúmlega 19 þúsund framhaldsskólanemendur læra erlend tungumál
Skólaárið 2011-2012 lögðu 19.342 nemendur á framhaldsskólastigi stund á nám í erlendum tungumálum eða 74,0% nemenda á þessu skólastigi. Þetta er ívið hærra hlutfall nemenda en undanfarin ár og þarf að fara aftur til skólaársins 2005-2006 til að finna hærra hlutfall framhaldsskólanema í námi í erlendum tungumálum.

Færri framhaldsskólanemendur læra mörg tungumál
Að meðaltali læra framhaldsskólanemendur 1,36 tungumál skólaárið 2011-2012, sem er lægra en undanfarin ár. Meðalfjöldi tungumála sem framhaldsskólanemendur læra hefur ekki verið lægri síðan Hagstofa Íslands hóf að birta sambærilegar tölur skólaárið 2002-2003. Ástæðan er aðallega sú að færri nemendur læra mörg tungumál, sem fer saman við fækkun nemenda á málabraut undanfarin ár.

Lægra hlutfall framhaldsskólanemenda lærir spænsku
Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku eða 16.091, 61,5% nemenda. Næstflestir eru nemendur í dönsku eða 8.269; 31,6% nemenda. Þessi tungumál eru skyldunámsgreinar fyrir flesta nemendur í framhaldsskólum. Þýska er í þriðja sæti en skólaárið 2011-2012 voru 4.547 nemendur skráðir í þýskunám; 17,4% framhaldskólanemenda. Spænska er fjórða algengasta erlenda tungumálið í framhaldsskólum með 4.179 nemendur, 16,0% nemenda. Nemendum sem læra spænsku hefur fjölgað ár frá ári en nú bregður svo við að hlutfall framhaldsskólanemenda sem læra spænsku lækkar á milli ára um hálft prósentustig, úr 16,5% árið 2010-2011. Franska er í fimmta sæti með 2.277 nemendur, 8,7% nemenda.

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda grunnskóla er safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið en gögnum er safnað tvisvar á ári frá framhaldsskólum. Einungis eru taldir þeir nemendur framhaldsskóla í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né esperantó.

Talnaefni:
     Grunnskólar
     Framhaldsskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.