FRÉTT MENNTUN 20. APRÍL 2018

Háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað um 14,7 prósentustig frá árinu 2003 en 42,4% íbúa í þessum aldurshópi höfðu lokið háskólamenntun árið 2017, alls 73.600. Á sama tíma fækkaði þeim sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun um rúmlega 11 prósentustig og voru þeir um 39.700 árið 2017, tæplega 23% íbúa á aldrinum 25–64 ára. Hægari breytingar voru á fjölda þeirra sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun en fjöldinn hefur verið á bilinu 35–39% íbúa á aldrinum 25–64 ára frá árinu 2003.

Konum með háskólamenntun fjölgar hraðar en körlum
Konum með háskólamenntun á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað hraðar en körlum frá árinu 2003. Á síðastliðnum 14 árum hefur konum með háskólamenntun fjölgað um rúm 20 prósentustig og var um helmingur kvenna á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2017. Á sama tímabili hefur körlum með háskólamenntun fjölgað um tæplega 10 prósentustig og voru tæplega 35% karla á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2017. Hlutfall háskólamenntaðra var hæst í aldurshópnum 30–49 ára, 39% hjá körlum en tæp 60% hjá konum. Hins vegar voru nærri tvöfalt fleiri karlar en konur á aldrinum 25–64 ára með doktorspróf, 1.400 karlar á móti 800 konum.

 

Töluverður munur á menntunarstöðu eftir búsetu
Menntunarstig íbúa á landsbyggðinni var talsvert lægra en íbúa á höfuðborgarsvæðinu árið 2017, líkt og fyrri ár. Tæplega 32% íbúa á landsbyggðinni á aldrinum 25–64 ára höfðu eingöngu lokið grunnmenntun og var það næstum tvöfalt hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu (17,5%). Þróunin á landsbyggðinni er þó sú sama og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sífellt fleiri sækja sér háskólamenntun. Mestur munur eftir búsetu í aldurshópnum 25–64 ára var á meðal háskólamenntaðra karla, en þeir voru rúmlega 43% íbúa á höfuðborgarsvæðinu en tæplega 20% íbúa á landsbyggðinni.

Atvinnuþátttaka eykst með meiri menntun
Atvinnuþátttaka var mest á meðal háskólamenntaðra einstaklinga í aldurshópnum 25–64 ára, tæplega 95% árið 2017. Meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun var atvinnuþátttakan rúmlega 91% en minnst var hún á meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, tæplega 79%. Atvinnuleysi var mest hjá konum sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun, 2,3%. Lægst var atvinnuleysið meðal kvenna sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, 1,3%.

Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggist á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem hafa lögheimili á Íslandi. Í úrtak ársins 2017 völdust af handahófi 15.734 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða reyndust búsettir erlendis var nettóúrtakið 15.313 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 10.488 einstaklingum sem jafngildir 68,5% svarhlutfalli. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Talnaefni

 

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.