FRÉTT MENNTUN 28. MAÍ 2009


Grunnskólum hefur fækkað um 22 frá haustinu 1998
Skólaárið 2008–2009 starfa 174 grunnskólar á Íslandi. Grunnskólum hefur fækkað um 22 frá skólaárinu 1998–1999 og hefur fámennustu og fjölmennustu skólunum fækkað mest. Nemendum í einkaskólum hefur fjölgað frá skólaárinu 1998–1999 og stunduðu 1,5% grunnskólanemenda nám í einkaskólum skólaárið 2008–2009. Nemendum í sérskólum hefur fækkað á sama tíma. Um fjórðungur grunnskólanema fékk sérkennslu eða stuðning skólaárið 2007–2008. Þessar upplýsingar koma fram í Hagtíðindum um grunnskóla 2007-2008, sem Hagstofa Íslands hefur gefið út.

 

Stærstum hluta kennslutímans er varið til kennslu í íslensku
Skóladagar eru að meðaltali 179 talsins en í flestum skólum eru þeir 180. Nemendur á yngsta stigi grunnskólans (1.–4. bekk) eru að jafnaði í 31,7 kennslustundir á viku í skólanum. Nemendur á miðstigi (5.–7. bekk) sækja skóla að jafnaði í 35,7 kennslustundir á viku og elstu nemendurnir (8.–10. bekk) fá 37,5 kennslustundir á viku. Mestum tíma er varið til kennslu í íslensku, 18,6% kennslutíma grunnskólans, og næstmestum til kennslu í stærðfræði, 15,9% kennslutímans.

Á Íslandi eru 18,3 nemendur í bekk skólaárið 2008-2009
Nemendum á hvert stöðugildi kennara hefur fækkað og eru 9,3 skólaárið 2008–2009. Meðalstærð bekkja sama skólaár er 18,3 nemendur. Þegar skipulag skólastarfsins á Íslandi skólaárið 2005-2006 er borið saman við önnur lönd kemur í ljós að bekkir á Íslandi eru litlir og hlutfall nemenda á kennara lágt. Kennarar á Íslandi kenna færri daga en vinna fleiri stundir á skólaárinu en í nágrannalöndunum sem borið er saman við. Íslenskir nemendur á aldrinum 7–15 ára geta vænst þess að fá kennslu í 7.320 klukkustundir á þessum 9 árum grunnskólans sem er meira en nemendur á hinum Norðurlöndunum fá, að Danmörku undanskilinni, en færri stundir en að meðaltali í OECD-ríkjunum og í 19 Evrópusambandslöndum.

Grunnskólar 2007–2008 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.