Nemendur í grunnskólum voru 47.162 haustið 2024 og fækkaði um 345 frá haustinu 2023, eða um 0,7%. Þessar tölur byggja á upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.
Alls störfuðu 174 grunnskólar á landinu skólaárið 2024-2025 sem er fækkun um einn skóla frá fyrra ári. Einkareknir grunnskólar voru 13 talsins með tæplega 1.560 nemendur og hafa nemendur í einkaskólum á grunnskólastigi ekki verið fleiri. Í sérskólum reknum af opinberum aðilum, sem eru þrír talsins, stunduðu 186 nemendur nám.
Færri fámennir skólar
Fámennum grunnskólum hefur farið fækkandi og hefur minni skólum ýmist verið lokað eða þeir orðið deildir í stærri grunnskólum. Haustið 2004 voru 19 skólar með færri en 25 nemendur en haustið 2014 hafði þessum fámennustu skólum fækkað niður í 14. Þeir voru 10 haustið 2024.
Grunnskólanemendum með erlent móðurmál og ríkisfang fjölgar áfram
Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2024 höfðu 7.661 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 16,2% nemenda, og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Hafa ber í huga að hluti þessara nemenda hefur einnig íslensku sem móðurmál. Af þeim nemendum sem hafa erlent móðurmál voru 847 í 10. bekk, og hafa að líkindum flestir þeirra sótt um nám í framhaldsskólum haustið 2025.
Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum er pólska sem er töluð af rúmlega 2.200 nemendum. Næstalgengasta erlenda tungumálið er spænska, sem rúmlega 600 börn hafa sem móðurmál. Tæplega 600 börn tala arabísku og lítið eitt færri hafa ensku sem móðurmál.
Grunnskólanemendum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig frá fyrra ári og hafa aldrei verið fleiri. Þeir voru 5.368 haustið 2024 og hafði fjölgað um tæplega 400 (7,9%) frá árinu áður. Nemendum með íslenskt ríkisfang fækkaði um 737 á milli áranna 2023 og 2024.