Kennarar með kennsluréttindi hafa aldrei verið fleiri, 95,9%
Aldrei áður í mælingum Hagstofunnar hefur hlutfall kennara með kennsluréttindi mælst hærra í grunnskólum landsins. Á árunum 1998-2008 var hlutfall réttindakennara á bilinu 80-87%. Haustið 2011 voru 95,5% kennara með kennsluréttindi og haustið 2012 voru 95,9% kennara með kennsluréttindi. Haustið 2012 voru 198 manns við kennslu án kennsluréttinda og er það mikil breyting frá haustinu 2002 þegar 931 einstaklingur án réttinda vann við kennslu í grunnskólum landsins.

Hæst var hlutfall réttindakennara á landinu í Reykjavík þar sem 98,7% kennara höfðu kennsluréttindi. Aðeins á Vestfjörðum (87,0%) og Austurlandi (89,0%) höfðu færri en 90% kennara kennsluréttindi. Hlutfall kennara með kennsluréttindi á landsbyggðinni hefur aukist hratt síðustu ár, frá því að vera undir 50% á tíunda áratug síðustu aldar í einstaka landshlutum.

Þessar tölur eru byggðar á upplýsingum sem Hagstofa Íslands safnar um grunnskóla á Íslandi í október ár hvert.

Starfsfólki grunnskólans fækkar fjórða árið í röð
Haustið 2012 voru 7.279 starfsmenn í 6.550 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi. Þar af voru 4.784 starfsmenn við kennslu í 4.534 stöðugildum. Starfsfólki fækkaði fjórða árið í röð. Starfsmönnum við kennslu, þ.e. skólastjórnendum, deildarstjórum og kennurum fjölgaði um 41, sem er fjölgun um 0,9%, en stöðugildum þeirra fækkaði um 25. Öðrum starfsmönnum grunnskólans en starfsfólki við kennslu fækkaði um 99 og um 107 stöðugildi. Frá haustinu 2008 hefur öðrum starfsmönnum en þeim sem koma beint að kennslu barna fækkað um 288 manns (10,4%) og stöðugildum þeirra fækkað frá sama tíma um 301 (13,0%).

Haustið 2011 voru karlar 19,9% starfsfólks við kennslu og var það í fyrsta skipti sem hlutur þeirra fór undir 20 af hundraði. Þessi þróun hélt áfram og haustið 2012 var hlutfall karla af starfsmönnum við kennslu 19,3%.

Nemendur í grunnskólum hafa ekki verið færri frá árinu 1997
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 42.320 haustið 2012 og höfðu ekki verið færri síðan árið 1997. Grunnskólanemendum fækkaði um 45 frá fyrra ári, eða um 0,1%.

Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, 44.809. Auk þess stunduðu á yfirstandandi skólaári 184 börn nám í 5 ára bekk. Þeir nemendur hafa aldrei verið fleiri frá því að gagnasöfnun Hagstofunnar hófst haustið 1997.

Grunnskólum landsins fækkaði um þrjá frá síðastliðnu skólaári vegna sameininga og eru nú 168 talsins.

18,9 nemendur eru í bekkjardeild að meðaltali
Að meðaltali voru fæstir nemendur í bekk á yngsta stigi grunnskólans (1.-4. bekkur), 18,0 talsins. Á miðstigi (5.-7. bekkur) voru að meðaltali 19,2 nemendur í bekk og á unglingastigi (8.-10. bekkur) voru nemendur að meðaltali 19,8 í bekkjardeild. Sé litið á tölur frá árinu 2002 voru flestir nemendur að meðaltali í bekk haustið 2011 eða 19,1 nemandi. Þeim fækkaði lítillega haustið 2012 og voru þá 18,9 nemendur í bekk að meðaltali. Nemendur í sérskólum og sérdeildum eru undanskildir.

Grunnskólanemendum með erlent ríkisfang og erlent móðurmál fer fjölgandi
Frá haustinu 2006 hefur erlendum nemendum fjölgað um 464 og voru 1.444 talsins haustið 2012. Haustið 2006 voru þessir nemendur 2,2% af grunnskólanemendum en voru orðnir 3,4% allra grunnskólanemenda haustið 2012. Fjölmennastir voru nemendur með pólskt ríkisfang (734) og nemendur frá Litháen (129).

Nemendum sem skráðir eru með erlent tungumál að móðurmáli fjölgaði um 246 frá hausti 2011 og höfðu 6,3% grunnskólanema erlent móðurmál haustið 2012. Þar var fjölmennasti hópurinn nemendur sem hafa pólsku að móðurmáli (850), filippseysk móðurmál (253), ensku (204), tælensku (151) og lithásku (126).

Leikskóli, grunnskóli og tónlistarskóli í einni stofnun
Í kjölfar laga um leikskóla og grunnskóla frá árinu 2008 er orðið algengara að leikskólar og grunnskólar og jafnvel tónlistarskólar séu reknir sem ein skólastofnun með einum stjórnanda. Haustið 2012 átti slíkur samrekstur sér stað í tæplega 30 skólastofnunum. Þetta rekstrarform er algengara í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni en í stærri sveitarfélögum þó svo að undantekningar séu til frá því.

Talnaefni