FRÉTT MENNTUN 17. DESEMBER 2012


Rúmlega 86% kennara í framhaldsskólum hafa kennsluréttindi, ekki fleiri síðasta áratug
Alls höfðu 86,3% starfsmanna við kennslu í framhaldsskólum í nóvember 2011 kennsluréttindi. Hlutfall kennara með kennsluréttindi hefur ekki verið svona hátt frá því að gagnasöfnun Hagstofunnar um starfsfólk í framhaldsskólum hófst fyrir rúmlega áratug. Hlutfall réttindakennara hefur hækkað um 13,7 prósentustig á síðasta áratug, úr 72,6% skólaárið 2001-2002. Með réttindakennara er átt við þann starfsmann við kennslu sem hefur leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kalla sig framhaldsskólakennara.

Mun hærra hlutfall kvenkennara en karlkennara hefur kennsluréttindi. Öll árin sem gagnasöfnun Hagstofu um starfsmenn framhaldsskóla hefur staðið hafa hlutfallslega fleiri konur haft kennsluréttindi en karlar. Skólaárið 2011-2012 höfðu 90,8% kvenkennara réttindi á móti 81,4% karlkennara. Hlutfall kvenkennara með réttindi hækkaði um þrjú prósentustig frá árinu á undan á meðan hlutfall karlkennara með kennsluréttindi lækkaði um 0,3 prósentustig.

Framhaldsskólar utan höfuðborgarsvæðisins höfðu löngum hlutfallslega færri réttindakennara innan sinna vébanda en skólar á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2006 snerist þetta við en þá voru hlutfallslega fleiri réttindakennarar starfandi í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2008 voru lítið eitt fleiri réttindakennarar á landsbyggðinni en síðan þá hefur réttindakennurum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað mun meira en á landsbyggðinni. Í nóvember 2011 höfðu 87,8% kennara á höfuðborgarsvæðinu kennsluréttindi en 84,1% kennara á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins.

 


Starfsfólki í framhaldsskólum fjölgaði frá fyrra ári
Haustið 2011 voru 2.617 starfsmenn í framhaldsskólum landsins í 2.516 stöðugildum. Þar af voru 1.911 starfsmenn við kennslu í 1.928 stöðugildum. Starfsmönnum hefur fjölgað um 104 frá fyrra ári en um 59 sé eingöngu miðað við starfsmenn sem sinna kennslu að einhverju leyti. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði um 104, þar af fjölgaði stöðugildum starfsmanna við kennslu um 82. Fjölgunin skýrist þó aðallega af því að einn nýr skóli bættist við í gagnasöfnunina, en þar starfa 82 í 46 stöðugildum. Fjöldi starfsmanna skólaárið 2011-2012 var áþekkur og skólaárin 2007-2010 en á skólaárinu 2010-2011 fækkaði starfsfólki í framhaldsskólum um 69 frá árinu á undan.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Viðmiðunartími gagna er nóvember fyrir þau gögn sem safnað hefur verið fyrir undanfarin skólaár, þ.e. frá nóvember 2004. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2011. Starfsfólk við kennslu eru allir þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu á viðmiðunartímanum, s.s. vegna barneigna- eða námsleyfis, eru ekki taldir sem starfsmenn við kennslu. Þeir teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.