FRÉTT MENNTUN 22. FEBRÚAR 2007


Grunnskólanemendum fækkar frá fyrra ári
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.875 haustið 2006, auk þess sem 103 börn stunduðu nám í 5 ára bekk í 7 skólum. Grunnskólanemendum hefur fækkað um 461 frá síðastliðnu skólaári eða um 1,0%. Gera má ráð fyrir að nemendum grunnskóla fækki næstu árin því þeir árgangar sem eru að hefja grunnskólanám eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi.
Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, 44.809 (mynd 1). Þessar tölur koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Nemendum í einkaskólum hefur fjölgað um 100 frá fyrra ári
Skólaárið 2006-2007 eru 7 einkaskólar starfandi á grunnskólastigi með 572 nemendur. Það er fjölgun um 100 nemendur frá síðastliðnu skólaári, eða 21,2%. Þá eru ekki taldir með 83 nemendur í 5 ára bekk. Grunnskólanemendur í einkaskólum hafa ekki verið fleiri frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands árið 1997 (mynd 2).

Alls starfa 173 grunnskólar á landinu og hefur þeim fækkað um 4 frá árinu áður. Hörðuvallaskóli í Kópavogi er nýr grunnskóli en 5 skólar hafa verið lagðir niður eða sameinaðir öðrum skólum frá síðastliðnu skólaári. Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 160 nemendur nám. Í ítalska grunnskólanum að Kárahnjúkum eru 10 nemendur, sem eru ekki inni í ofangreindum tölum.

Að meðaltali eru 18,6 nemendur í bekk, en þá eru sérskólar og sérdeildir ekki taldar með. Bekkjarstærð vex með hækkandi aldri nemenda. Að meðaltali eru fæstir nemendur í 1. bekk, eða 17,0, en flestir nemendur í 9. bekk, eða 20,5. Ekki eru til upplýsingar um fjölda kennara sem kenna hverjum bekk en í sumum tilvikum er stórum bekkjardeildum kennt af fleiri en einum kennara. Þá hefur ýmis konar samkennsla árganga farið vaxandi og er ekki eingöngu stunduð í fámennum skólum á landsbyggðinni. Alls störfuðu 4.961 starfsmenn við kennslu og skólastjórnun haustið 2006 og eru 9,8 nemendur á bak við hvert stöðugildi kennara.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.