Nemendum ofan grunnskóla fækkaði um 1,7%

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 45.418 haustið 2012 og fækkaði um 799 nemendur frá fyrra ári, eða 1,7%, aðallega vegna færri nemenda á framhaldsskólastigi. Alls sóttu 20.546 karlar nám og 24.872 konur. Körlum við nám fækkaði um 242 frá fyrra ári (-1,9%) en konum um 451 (-3,4%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 25.460 nemendur nám og fækkaði um 2,6% frá fyrra ári. Fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi, sem varð á milli áranna 2010 og 2011 gekk því að miklu leyti til baka. Á viðbótarstigi voru 869 nemendur og fækkaði um 9,9%. Á háskólastigi í heild voru 19.089 nemendur og fækkaði um 0,1% frá haustinu 2011.

Færri 19 ára og 20 ára ungmenni sóttu skóla haustið 2012 en 2011
Alls stunduðu 73,5% 19 ára ungmenna nám og 53,6% 20 ára, sem er talsverð fækkun frá fyrra ári. Haustið 2011 sóttu 75,2% 19 ára og 58,0% 20 ára nám og minnkaði skólasókn um 1,7 prósentustig hjá 19 ára og 4,4 prósentustig hjá 20 ára nemendum. Fækkun varð bæði hjá körlum og konum.

Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2012 var 95,5%, sem er fjölgun um 0,3 prósentustig frá hausti 2011. Stúlkum fjölgaði um eitt prósentustig en drengjum fækkaði um 0,3 prósentustig frá hausti 2011. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sóttu skóla á Austurlandi eða 99,5%, en fæstir á Suðurnesjum, 92,5%.

Einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi lagði stund á starfsnám og hafa ekki verið færri síðan 1997
Rúmlega tveir af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi stunduðu nám á bóknámsbrautum haustið 2012 en 33,0% voru í starfsnámi. Hlutfall nemenda í starfsnámi lækkaði frá síðasta ári, þegar það var 33,6% og hefur ekki verið lægra síðan núverandi flokkun menntunar var tekin upp árið 1997.

Hlutfall nemenda í starfsnámi var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 38,2% á móti 27,8% hjá konum.


 


Tæpur fjórðungur nemenda á doktorsstigi eru útlendingar
Körlum við nám á háskóla- og doktorsstigi fjölgaði um 47 (0,7%) frá hausti 2011 en konum fækkaði um 57 (-0,5%). Nemendur á meistarastigi í háskólanámi voru 4.167 haustið 2012. Þeim fjölgaði ár frá ári þar til haustið 2011 þegar þeim fækkaði um 59 og þeim fækkaði enn um 9 frá 2011 til 2012 (-0,2%).

Nemendur í námi til doktorsgráðu voru 470 haustið 2012, og hafði fjölgað um 18 (4,0%) frá hausti 2011. Tæplega fjórðungur (24,0%) doktorsnema eru útlendingar, flestir frá öðrum Evrópulöndum. Erlendir doktorsnemar voru tæplega helmingur (48,5%) doktorsnema í raunvísindum og rúmur þriðjungur (35,5%) doktorsnema í verkfræðigreinum.

Langflestir háskólanemendur stunda nám í félagsvísindum, viðskipta- og lögfræði
Flestir háskólanemendur haustið 2012 stunduðu nám í greinum sem falla undir félagsvísindi, viðskipta- og lögfræði, 36,6% nemenda. Næstflestir, eða 15,2% , voru nemendur á námssviðum sem falla undir hugvísindi og listir. Til samanburðar lærðu 10,3% nemenda raunvísindi, stærðfræði eða tölvunarfræði og 8,7% nemenda lögðu stund á nám í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð.

Fyrir fimm árum síðan, haustið 2007, var menntun það svið sem næstflestir háskólastúdentar féllu undir, 17,1% nemenda. Hlutfall háskólanema í menntun hafði lækkað í 11,9% haustið 2012.

Nemendum í raunvísindum fjölgaði hins vegar á þessu fimm ára tímabili úr 7,6% háskólanema haustið 2007 í 10,3%.

Konur voru 62,2% allra nemenda á háskóla- og doktorsstigi haustið 2012. Þær voru fjölmennari en karlar á öllum námssviðum utan verkfræði og raunvísinda. Í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð voru konur 31,1% nemenda en 36,8% nemenda í raunvísindum, stærðfræði og tölvunarfræði. Flestar voru konur á námssviðum sem falla undir heilbrigði og velferð eða 86,1% allra nemenda. Í menntun og kennslufræðum voru konur 79,3% allra nemenda.
 


Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki.

Talnaefni:
    Framhaldsskólar
    Háskólar
    Yfirlit