Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á skólastarf á Íslandi eins og víða annars staðar. Tæplega þriðjungur (32,2%) grunnskólanemanda missti ekki úr kennsludag vegna faraldursins skólaárið 2019-2020 og rúmlega 22.700 nemendur (49,1%) misstu úr einn eða tvo daga vegna lokunar skóla. Hins vegar varð faraldurinn til þess að rúmlega 250 nemendur misstu fleiri en 20 kennsludaga skólaárið 2019-2020, mest 26 daga.

Margir grunnskólar brugðust við heimsfaraldrinum með því kenna skerta daga og buðu upp á fjarkennslu, ýmist fyrir alla nemendur eða hluta nemendahópsins. Tæplega 37.600 nemendur fengu skerta kennsludaga á meðan á faraldrinum stóð, frá einum upp í 43 daga. Þar af voru skertir kennsludagar fleiri en 10 hjá rúmlega 32.500 nemendum.

Töluvert færri, eða rúmlega 16.500 nemendur, fengu fjarkennslu á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð, flestir á bilinu 10-15 daga. Meira var um fjarkennslu í eldri bekkjum. Þannig var einhver fjarkennsla hjá tæplega 61% nemenda í 10. bekk en hjá tæplega 16% nemenda í 1. bekk. Að meðaltali féll kennsla niður vegna faraldursins í 2,6 daga, skertir dagar voru 13,9 talsins og fjarkennsludagar voru 5,5 skólaárið 2019-2020.

Um gögnin
Niðurstöðurnar koma úr árlegri gagnasöfnun Hagstofunnar frá grunnskólum en þar var bætt við spurningum um áhrif kórónuveirufaraldursins á skipulag skólastarfsins. Beðið var um tölur eftir árgöngum um fjölda daga þar sem kennsla féll niður, daga þar sem kennsla var skert og daga þar sem fjarkennsla var viðhöfð. Nemendatölurnar sem hér eru gefnar upp miða við að allir nemendur árgangs í viðkomandi skóla hafi sótt skóla þegar kennsla var í boði. Tölurnar sýna því ekki nemendur sem voru heima þegar staðnám var í boði.

Þrjár nýjar töflur hafa verið birtar á vef Hagstofunnar með talnaefni úr gagnasöfnuninni.

Talnaefni