FRÉTT MENNTUN 15. DESEMBER 2004

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um brottfall nemenda af háskólastigi á milli áranna 2002 og 2003. Þá er einnig skoðað brottfall nemenda af háskólastigi á milli áranna 1997 og 1998 og afdrif þeirra nemenda könnuð.

Brottfall nemenda af háskólastigi 2002-2003 var 14,7%
Hagstofa Íslands hefur skoðað brottfall af háskólastigi með því að bera saman upplýsingar um nemendur úr Nemendaskrá Hagstofu Íslands og gögn um námslok úr Prófaskrá Hagstofunnar. Niðurstöðurnar sýna að 2.037 nemendur haustið 2002 hafi hætt eða tekið sér hlé frá námi haustið 2003. Brottfall nemenda af háskólastigi á Íslandi var því 14,7%. Brottfall er minna meðal nemenda í dagskóla (14,4%) og fjarnámi (15,0%) en talsvert meira meðal nemenda í kvöldskólum (18,5%). Þá er brottfall umtalsvert minna meðal nemenda í fullu námi (12,2%) en í hlutanámi (21,0%). Brottfall er meira meðal karla (16,5%) en kvenna (13,6%) og að jafnaði meira meðal eldri nemenda en þeirra yngri. Brottfall er minnst hjá nemendum sem vinna að fyrstu háskólagráðu (13,3%) en meira hjá þeim sem lengra eru komnir í námi og þeim sem eru í stuttu námi sem ekki lýkur með háskólagráðu.

Rúmlega helmingur brottfallshópsins frá 1997-1998 hóf nám á ný
Brottfall nemenda af háskólastigi var hlutfallslega jafnmikið fyrir fimm árum síðan og það er nú, þrátt fyrir mikla fjölgun nemenda á þessum fimm árum. Rúmlega helmingur (51,3%) brottfallshópsins fyrir fimm árum síðan hefur hafið nám á ný. Þar af tók tæplega fjórðungur (24,5%) hópsins aðeins árshlé frá námi. 

Hvað er brottfall?
Brottfall nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er sú aðferð valin að telja nemendur tiltekins skólaárs brottfallna sem skrá sig ekki í skóla ári síðar og hafa ekki útskrifast í millitíðinni. Hér er miðað við nemendur á háskólastigi á Íslandi haustið 2002 sem ekki voru skráðir í nám í háskólum, sérskólum eða framhaldsskólum á Íslandi, með skráðan iðnsamning eða í námi erlendis skv. Lánasjóði íslenskra námsmanna haustið 2003, og höfðu ekki útskrifast úr námi á háskólastigi. Þá hefur verið tekið tillit til þess hvort þeir sem ekki koma fram í skólum síðara árið hafi látist.

Hvað er háskólastig?
Til náms á háskólastigi telst nám í skólum þar sem krafist er stúdentsprófs eða annars lokanáms á framhaldsskólastigi til inngöngu, t.d. iðnnáms. Háskólastig nær því ekki aðeins yfir nám til háskólagráðu heldur telst þar einnig með ýmiss konar nám sem ekki leiðir til háskólagráðu, t.d. iðnmeistaranám, iðnfræðinám, stutt og hagnýtt nám í háskólum (oft 1,5 árs nám) og tveggja ára nám í háskólum. Í mörgum framhaldsskólum og listaskólum er boðið upp á nám á háskólastigi. Því er ekki hægt að setja samasemmerki á milli náms á háskólastigi og háskóla.

Nánar er fjallað um brottfall nemenda af háskólastigi í nýjasta hefti Hagtíðinda um skólamál.

Brottfall nemenda á háskólastigi 2002-2003

Talnaefni 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.