FRÉTT MENNTUN 18. MARS 2024

Það voru 5.458 nemendur með 5.488 próf á háskóla- og doktorsstigi sem útskrifuðust skólaárið 2021-2022, 246 fleiri en árið áður (4,7%). Aldrei hafa verið fleiri brautskráningar með meistaragráðu en þær voru 1.807 talsins og fjölgaði um 5,0% frá árinu áður.

Brautskráningar voru 2.826 vegna fyrstu háskólagráðu, brautskráningar með viðbótardiplómu voru 671 og 89 luku doktorsprófi. Eins og undanfarin ár voru konur um tveir þriðju nemenda sem luku háskólaprófi eða 67,7%.

Brautskráningarhlutfall á háskólastigi fer lækkandi
Brautskráningarhlutfall sýnir fjölda nýnema, sem hefur lokið námi innan tíu ára frá innritun. Haustið 2012 hófu 4.096 nemendur nám á háskólastigi á Íslandi í fyrsta skipti. Tíu árum síðar höfðu 62,6% þeirra útskrifast úr einhverju námi á háskólastigi. Hlutfall brautskráðra nema hefur farið lækkandi frá árinu 2008 þegar það var hæst en þá höfðu 73,1% nýnema ársins 1998 lokið námi innan tíu ára. Öll árin sem Hagstofan hefur reiknað brautskráningarhlutfall á háskólastigi hefur hlutfall kvenna sem lýkur námi verið hærra en karla.

Flestir brautskráðir úr háskólanámi án erlends bakgrunns
Langflestir brautskráðir nemendur á háskólastigi skólaárið 2021-2022 voru án erlends bakgrunns, eða tæp 83% brautskráðra. Aldrei hafa fleiri innflytjendur útskrifast úr námi á háskólastigi, þegar doktorsnám er undanskilið. Þeir voru 462 skólaárið 2021-2022, 8,6% brautskráðra, og fjölgaði um 79 frá árinu áður. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem Hagstofan notar teljast þeir innflytjendur sem eru fæddir erlendis og eiga foreldra sem líka eru fæddir erlendis. Flestir erlendir námsmenn falla í þennan flokk, án þess að vitað sé hvort þeir ætla sér að dvelja áfram á Íslandi eða ekki.

Á doktorsstigi voru brautskráðir án erlends bakgrunns 58,4% en innflytjendur voru rúm 37% doktora. Í sumum tilfellum er um að ræða erlenda nemendur sem ljúka doktorsnámi í samstarfi háskóla á Íslandi og erlendra háskóla.

Færri brautskráðir á framhaldsskólastigi en fleiri á viðbótarstigi
Þegar á heildina er litið brautskráðust 5.306 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.286 próf skólaárið 2021-2022, 241 færri en árið áður (-4,3%). Þá brautskráðust 956 nemendur af viðbótarstigi en á viðbótarstig flokkast nám sem er bætt ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi. Ekki hafa áður brautskráðst fleiri á viðbótarstigi á einu skólaári.

Rúmlega sex af hverjum tíu brautskráðum stúdentum undir tvítugu
Alls útskrifuðust 3.383 stúdentar úr 35 framhaldsskólum skólaárið 2021-2022, 334 færri en skólaárið á undan (-9,0%). Rúmlega sex af hverjum tíu stúdentum (61,2%) skólaárið 2021-2022 voru 19 ára og yngri en 13,2% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað mikið síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs. Hlutfall 20 ára af brautskráðum stúdentum hefur lækkað að sama skapi frá breytingunni en var þó svo til óbreytt frá skólaárinu 2020-2021.

Fleiri brautskráðir með sveinspróf og ýmis réttindapróf á framhaldsskólastigi
Skólaárið 2021-2022 voru 692 brautskráningar með sveinspróf, 35 fleiri en árið áður (5,3%). Brautskráningum með burtfararpróf úr iðn fjölgaði úr 842 í 868 en með því lýkur bóklega hluta iðnnáms. Brautskráðir iðnmeistarar voru 336 og hafa ekki áður verið fleiri. Þá fjölgaði brautskráningum á framhaldsskólastigi meðal þeirra sem luku ýmsum réttindaprófum, en þeir voru 630 talsins, 56 fleiri en árið áður (9.8%). Alls var 641 brautskráning með hæfnipróf, sem eru ýmis próf sem ekki leiða til starfsréttinda. Sem dæmi um nám sem leiðir til hæfniprófs má nefna listnám, nám stuðningsfulltrúa og nám í sjávarútvegi á framhaldsskólastigi.

Rúmlega sex af hverjum tíu brautskráðum með sveinspróf eru 25 ára og eldri
Það vekur athygli hversu miklu munar á aldri þeirra sem ljúka stúdentsprófi annars vegar, og sveinsprófi hins vegar, en hvort tveggja eru lokapróf á framhaldsskólastigi á 3. hæfniþrepi. Á meðan rúmlega 60% þeirra sem luku stúdentsprófi skólaárið 2021-2022 voru yngri en tvítugir, sjá mynd 2 hér að ofan, voru rúmlega 60% brautskráðra með sveinspróf 25 ára og eldri og tæpur fjórðungur var 35 ára og eldri. Þess skal getið að algengast er að nám til stúdentsprófs sé 200 framhaldsskólaeiningar eftir að námið var stytt, þar sem 30 einingar teljast vera fullt nám á önn. Nám til sveinsprófs er yfirleitt lengra en nám til stúdentsprófs, á mörgum námbrautum er það talið vera fjögurra ára nám og getur verið rúmlega 260 framhaldsskólaeiningar. Þá verja nemendur yfirleitt hluta námstímans í starfsnámi á vinnustöðum.

Talnaefni
Háskólastig
Framhaldsskólastig

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.