FRÉTT MENNTUN 29. APRÍL 2011


Börn í leikskólum hafa aldrei verið fleiri
Í desember 2010 sótti 18.961 barn leikskóla á Íslandi og hafa þau aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 245 frá desember 2009, eða um 1,3%. Þrátt fyrir þessa fjölgun hefur hlutfall  barna á aldrinum 1-5 ára sem sækja leikskóla lækkað lítillega, úr 83% fyrir ári síðan í 82% í desember 2010. Þá má greina breytingar á viðverutíma barnanna. Milli áranna 2009 og 2010 fækkar um tæplega 1.100 börn sem dvelja í leikskólanum í 9 klukkustundir eða lengur á dag en á sama tíma fjölgar börnum sem dvelja í leikskóla í 8 klukkustundir á dag um tæplega 1.400.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkar milli ára
Í desember 2010 nutu 1.232 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, 6,5% leikskólabarna. Þetta er fækkun um 130 börn frá fyrra ári (9,5%). Eins og undanfarin ár eru fleiri drengir í þessum hópi. Árið 2010 nutu 834 drengir stuðnings (68%) og 398 stúlkur (32%). Hlutfall barna sem njóta stuðnings er mishátt eftir landssvæðum. Þannig njóta 3,9% leikskólabarna á Norðurlandi eystra stuðnings, meðan 11,2% austfirskra barna fá stuðning.

Börnum með pólsku sem móðurmál fjölgar um tæplega 100
Í desember 2010 eru 1.815 börn með erlent tungumál að móðurmáli (9,6% leikskólabarna) og hafa aldrei verið fleiri. Þessum börnum fjölgaði um 201 (12,5%) frá desember 2009. Af þeim hafa 520 börn pólsku sem móðurmál og er það algengasta erlenda tungumálið eins og undanfarin ár. Pólskumælandi leikskólabörnum fjölgar um 97 frá fyrra ári. Þá fjölgar leikskólabörnum sem hafa lithásku að móðurmáli um 25 og börnum sem hafa tælensku að móðurmáli fjölgar um 19.

Börnum með erlent ríkisfang fjölgar
Í desember 2010 voru 711 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang og hafði fjölgað um 82 börn frá fyrra ári (13,0%). Þetta rímar við fjölgun barna í leikskólum sem hafa erlent móðurmál. Fjölgunin er tilkomin vegna fjölgunar barna frá Austur-Evrópu (57) og frá Eystrasaltslöndunum (26).

 

Nemendum á Íslandi fækkar í fyrsta skipti frá árinu 1997
Með birtingu talna um börn í leikskólum eru fyrirliggjandi tölur um fjölda nemenda á öllum skólastigum á Íslandi haustið 2010. Allt frá árinu 1997 hefur nemendum á þessum skólastigum fjölgað stöðugt þar til haustið 2010. Á haustönn 2009 stunduðu 106.716 nemendur nám frá leikskólastigi til háskólastigs. Haustið 2010 hafði nemendum fækkað um 267 (0,3%) og munar þar mest um fækkun nemenda á framhaldsskólastigi (1.274).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.