FRÉTT MENNTUN 26. APRÍL 2005

Út er komið hefti í efnisflokknum Skólamál í ritröð Hagtíðinda. Að þessu sinni er fjallað um börn í leikskólum í desember 2004.
     Í desember 2004 sóttu 16.710 börn leikskóla á Íslandi. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 25 frá fyrra ári eða um 0,15%, sem er mun minni fjölgun en undanfarin ár. Hlutfallslega fleiri drengir en stúlkur sækja leikskóla, eða 80,6% drengja og 79,1% stúlkna á aldrinum 1-5 ára. Að auki voru 11 börn í leikskóla sem rekinn er af Impregilo S.p.A. við Kárahnjúka.
     Starfandi leikskólar voru 261 talsins og hafði fækkað um 6 frá árinu 2003. Fækkunin stafar af því að leikskólar hafa hætt starfsemi eða verið sameinaðir öðrum leikskólum. Alls sóttu tæplega 1.500 börn nám í 28 einkareknum leikskólum. Leikskólum sem hafa opið allt árið hefur fækkað og voru 19 talsins árið 2004. Algengast er að leikskólar séu lokaðir í 3-4 vikur yfir sumartímann.
     Í desember 2004 sótti rúmlega fjórðungur eins árs barna leikskóla og um 90% tveggja ára barna. Viðverutími barna á leikskólum heldur áfram að lengjast og dvelja nú þrjú af hverjum fjórum börnum í leikskólanum í 7 stundir eða lengur daglega.
     Börn sem njóta sérstaks stuðnings eru tæplega 1.000 talsins og hefur fækkað um 100 frá árinu 2003. Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku fjölgar og eru nú 1.145 talsins, tæplega 7% allra leikskólabarna. Í grunnskólum landsins er samsvarandi hlutfall haustið 2004 3,0%. Rúmlega 200 börn eru erlendir ríkisborgarar, flest frá Austur-Evrópu. Þar eru Pólverjar fjölmennastir, 60 talsins.

Börn í leikskólum í desember 2004 - útgáfur 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.