FRÉTT MENNTUN 21. APRÍL 2004

Í desember 2003 voru 267 leikskólar starfandi á landinu og hafði þeim fjölgað um fimm frá desembermánuði árið 2002. Tæplega 9 af hverjum 10 leikskólum (237) eru reknir af sveitarfélögunum, tveir leikskólar eru reknir af sjúkrahúsum og 28 af einkaaðilum. Fjöldi leikskóla sem reknir eru af sveitarfélögum stóð í stað milli ára. Á síðastliðnu ári sameinuðust nokkrir minni leikskólar sveitarfélaga og jafnmargir nýir opnuðu. Einkareknum leikskólum fjölgaði um fimm. Alls höfðu 23 leikskólar opið allt árið en það er fækkun úr 57 árið 2002 og 87 árið 2000. Rúmlega 9 af hverjum 10 (91,0%) leikskólum voru opnir í 46 vikur eða lengur á árinu 2003.

Leikskólabörnum fjölgar um 400 frá fyrra ári
Í desember árið 2003 sóttu um 16.700 (16.687) börn leikskóla og hefur þeim fjölgað um rúmlega 400 börn (405) frá desember 2002, sem er 2,5% fjölgun. Fjölgunin er hlutfallslega mest meðal eins árs barna. Eins árs börnum fjölgar um tæp 27% og hafði fjölgað um 31% milli áranna 2001 og 2002. Í desember 2003 sóttu 24% eins árs barna leikskóla en hlutfallið var 10% þremur árum áður. Í desember 2003 voru 89% tveggja ára barna í leikskólum en hlutfallið var 54% í desember 2000. Fjöldi þriggja til fimm ára barna breytist lítið hlutfallslega, enda er skólasókn í leikskóla 93-95% í þessum aldurshópum. Viðvera barnanna heldur áfram að lengjast og voru 72% allra leikskólabarna í leikskólanum í 7 stundir eða lengur daglega.  Fjölgunin er mest í 9 tíma vistun og eru nú 32% allra leikskólabarna í vistun í 9 tíma eða lengur á hverjum degi.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fjölgar um 20% á milli ára
Í desember 2003 naut 1.081 barn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Þetta eru 6,5% allra leikskólabarna. Börnum sem njóta stuðnings hefur fjölgað á hverju ári frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1998. Þá fengu 3,7% leikskólabarna stuðning og 5,2% barna haustið 2000. Tvö af hverjum þremur börnum sem njóta sérstaks stuðnings eru drengir. Alls njóta 8,3% drengja sérstaks stuðnings og 4,6% stúlkna.

Rúmlega 6% leikskólabarna hafa annað móðurmál en íslensku
Á síðustu árum hefur börnum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli fjölgað verulega. Rúmlega 1.000 leikskólabörn (1.013; 6,1%) hafa annað móðurmál en íslensku og hefur þeim fjölgað um 130 frá árinu áður. Jafnmörg börn hafa nú ensku og pólsku að móðurmáli (122) en hingað til hafa enskumælandi börn verið flest.  Sama þróun á sér stað í grunnskólum landsins. Tveir þriðju hlutar barna með erlent móðurmál búa á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi tungumála sem töluð eru af 10 eða fleiri börnum eru 25 talsins.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.