FRÉTT MENNING 07. DESEMBER 2021

Tæplega 60 þúsund tónleikagestir mættu á 424 tónleika árið 2020 í þremur stærstu tónleikahúsum landsins, það er í Hörpu, Salnum og Hofi. Þar af komu 45.575 gestir á 330 tónleika í Hörpu, 12.534 á 76 tónleika í Salnum og 1.872 á 18 tónleika í Hofi. Tónleikagestir í Hörpu og Hofi hafa þannig aldrei verið færri en árið 2020. Í Salnum voru gestirnir færri árin 2000 og 2001 en sem hlutfall af mannfjölda voru þeir þó fæstir árið 2020, eða 3,44% samanborið við 3,48% árið 2001 og 3,89% árið 2000.1

Árið 2019 voru tónleikarnir 695 og tónleikagestir ríflega 205 þúsund talsins og því ljóst að um mikla fækkun er að ræða á milli ára, sérstaklega hvað tónleikagesti varðar. Þannig var fjöldi tónleika árið 2020 rúmlega 60% af því sem var árið 2019 en fjöldi tónleikagesta aðeins tæplega 30%. Rekja má þessa miklu fækkun tónleikagesta milli ára til kórónuveirufaraldursins og þeirra samkomu- og fjöldatakmarkana sem komið var á innanlands á síðasta ári.

Bæði tónleikum og tónleikagestum hefur farið fækkandi frá árinu 2016 en á tímabilinu 2013-2019 sveiflaðist meðalfjöldi gesta á hverjum tónleikum á milli tæplega 300 og 400. Árið 2020 var meðalfjöldi tónleikagesta á hverjum tónleikum þó ekki nema 141 í samanburði við 296 árið 2019.

Mikill samdráttur í aðsókn að sinfóníutónleikum
Á árinu 2020 sóttu alls 17.658 gestir samtals 55 innlenda tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Fara þarf aftur til ársins 1977 til að finna færri tónleikagesti á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands en þá voru þeir 17.500 talsins. Innlendir gestir voru þó aðeins 4,9% af mannfjöldanum árið 2020 en alls voru þeir 7,9% árið 1977 og 6,3% árið 1976, þegar þeir voru fæstir.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hélt enga almenna tónleika á árinu 2020 en 400 gestir sóttu fjóra skólatónleika sveitarinnar. Tónleikar og tónleikagestir Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hafa þannig ekki verið færri síðan mælingar hófust árið 1995. Líkt og með tónleika í tónlistarhúsunum þremur varð mikil fækkun á bæði fjölda tónleika og fjölda tónleikagesta á milli 2019 og 2020. Þannig voru innlendir tónleikar rúmlega tvöfalt fleiri árið 2019, eða 96, og tónleikagestir tæplega fimm sinnum fleiri eða 79.858.

Um gögnin
Hagstofa Íslands safnar árlega saman tölum um tónleikahald sinfóníuhljómsveita og tónleikahald í tónleikahúsum frá viðkomandi sveitum og húsum. Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í tónleikahúsunum þremur eru taldir með í upplýsingum frá bæði hljómsveitunum og tónleikahúsunum.

1 Hlutfall af mannfjölda 1. janúar á þeim árum sem um ræðir (Lykiltölur mannfjöldans 1703-2020). Vert er að taka fram að ekki er um eiginlegan fjölda stakra gesta að ræða þar sem sami einstaklingurinn getur sótt fleiri en eina tónleika. Þeir sem fara oftar en einu sinni á tónleika eru þannig taldir oftar en einu sinni í gestafjölda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281052 , netfang Erla.Gudmundsdottir@Hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.