FRÉTT MENNING 14. APRÍL 2015

Aðsókn að sýningum áhugaleikfélaga á síðasta leikári nam ríflega 33 þúsund gestum, eða næsta viðlíka og á þar seinasta leikári. Gestafjöldi síðasta leikárs jafngildir því að einn af hverjum tíu landsmönnum hafi séð uppfærslu á vegum áhugaleikfélaga. Lítilleg fækkun hefur orðið á fjölda sýningargesta áhugaleikfélaga á undanförnum leikárum, eftir nokkra fjölgun gesta næstu leikár á undan (sjá mynd 1).

Hæst náði aðsókn að sýningum áhugaleikfélaga á árunum 2001–2004, en þau ár tóku nokkur áhugaleikfélög þátt í bæjarhátíðum og/eða færðu upp á fjalirnar verk sem drógu að mikinn fjölda gesta.

Aðsókn að sýningum áhugaleikfélaga er ærið mismunandi eftir landshlutum. Á næstliðnu leikári sóttu langsamlega flestir sýningar áhugaleikfélaga á Norðurlandi eystra og Suðurlandi miðað við tiltölu fólksfjölda, eða þrír af hverjum tíu íbúum, samanborið við einn af hverjum tíu ef miðað er við landið í heild. Sýningargestir voru fæstir á Austurlandi og Suðurnesjum, eða ellefu af hverjum hundrað íbúum (sjá mynd 2).

Áhugaleikfélög færðu upp á fjalirnar á síðasta leikári 69 uppfærslur, sem sýndar voru samtals 483 sinnum. Þrjár af hverjum fjórum uppfærslum áhugaleikfélaga samanstóðu af einu eða fleiri íslenskum höfundaverkum. Samanlagður fjöldi flytjenda var ríflega 1.300 manns.

Starfandi áhugaleikfélögum hefur fækkað fast að um helming frá því að þau voru flest í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Undanfarin ár hefur fjöldi leikfélaga haldist næsta stöðugur, eða laust innan við 40 talsins (sjá mynd 3).

Um tölurnar
Hagstofa Íslands tekur árlega saman tölur um starfsemi áhugaleikfélaga sem fengnar eru úr gagnagrunni Bandalags íslenskra leikfélaga.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.