FRÉTT MENNING 16. DESEMBER 2025

Samanlögð þjónustuviðskipti við útlönd í menningu og skapandi greinum fyrir árið 2024 námu 19,6 milljörðum króna. Hæstu tekjurnar voru í hljóð- og myndmiðlun upp á 13,1 milljarð, í upplýsingaþjónustu upp á 5,7 milljarða og þá námu höfundaréttargreiðslur 761,9 milljónum. Gögnum vegna arkitektaþjónustu var ekki skilað inn fyrir 2023 og 2024 og er hún því ekki meðtalin í útreikningunum.

Yfir fimm ára tímabil, 2020-2024, hafa tekjur í þjónustuviðskiptum aukist um 161,8% í menningu og skapandi greinum og var meðalhækkunin um 21,2% fyrir hvert ár. Í samanburði jukust tekjur fyrir öll þjónustuviðskipti samanlagt um 159,0% yfir sama tímabil og að meðaltali um 21,0% fyrir hvert ár. Mesta aukningin var í hljóð- og myndmiðlun um 226,4% og um 26,7% meðal hækkun á ári.

Um gögnin
Þjónustuviðskipti í menningu og skapandi greinum byggja á talnaefni um þjónustuútflutning eftir þjónustuflokki. Valdir voru fjórir þjónustuflokkar sem endurspegla útflutning á menningu og skapandi greinum og eru þeir eftirfarandi:

Höfundaréttargreiðslur: Undir höfundarétt falla viðurkennd leyfi til að endurskapa og/eða dreifa mynd- og hljóðefni, svo sem kvikmyndum og tónlist, verkum rithöfunda, myndlistarmanna og myndhöggvara með leyfissamningum. Einnig réttindi sem tengjast endurgerð og/eða dreifingu upptaka af lifandi flutningi og útvarps-, eða sjónvarpsútsendingum.

Önnur upplýsingaþjónusta: Undir aðra upplýsingaþjónustu fellur gagnagrunnsþjónusta svo sem geymsla, dreifing, hönnun og miðlun gagna. Þar á meðal skrár og póstlistar. Undir þennan flokka falla einnig áskriftargjöld að dagblöðum og tímaritum og þjónusta bókasafna og skjalasafna.

Þjónusta tengd mynd og hljóðefni: Undir þjónustu tengd mynd- og hljóðefni falla þóknanir vegna framleiðslu kvikmynda, útvarps- og sjónvarpsþátta og tónlistarupptaka. Þjónusta í tengslum við leikhús, tónleika og íþróttaviðburði fellur einnig þar undir sem og þóknanir vegna áskriftarsjónvarps.

Arkitektaþjónusta: Arkitektaþjónusta felur í sér viðskipti vegna hönnunar á mannvirkjum.

Menningarvísar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.