FRÉTT MENNING 08. JÚLÍ 2022

Leiksýningum á vegum leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga fjölgaði um 10,4% á tímabilinu 2015-2019 en fækkaði um 41,7% frá leikárinu 2018-2019 til leikársins 2019-2020. Leiksýningar voru 1.195 talsins leikárið 2019-2020 og hafa þær ekki verið færri frá því að mælingar hófust árið 2000.

Milli leikáranna 2018-2019 og 2019-2020 fækkaði leiksýningum og gestaleikjum á vegum atvinnuleikhópa mest, eða um 44%, og þá leiksýningum og gestaleikjum á vegum leikhúsa, um 38,3%. Leiksýningum á vegum áhugaleikfélaga fækkaði litlu minna, eða um 37,9%.

Leikhúsgestum hefur fækkað jafnt og þétt frá 2010 þegar þeir voru 416 þúsund, eða 1,3 á hvern íbúa landsins. Árin 2015-2019 voru leikhúsgestir á bilinu 345-360 þúsund á hverju leikári, um það bil einn gestur á hvern íbúa, en rúmlega 210 þúsund á leikárinu 2019-2020 eða 0,6% á hvern íbúa.

Leikhúsgestum fækkaði þannig um 2,5% milli 2015-2019 en um 40,2% milli leikáranna 2018-2019 og 2019-2020, að öllum líkindum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Þar af fækkaði gestum leikhúsa mest, um 46,3%. Gestum áhugaleikfélaga fækkaði þá um 19,7% og gestum atvinnuleikhópa um 17,4%.

Um gögnin
Hagstofa Íslands safnar reglulega saman tölum um starfsemi leikhúsa- og hópa á Íslandi. Upplýsingar um leikhús (sviðslistastofnanir) koma frá þeim sjálfum, þau eru Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Íslenski dansflokkurinn, Íslenska óperan og Þjóðleikhúsið. Undir atvinnuleikhópa falla sviðslistahópar sem eiga aðild að Sjálfstæðu leikhúsunum, sem safnar upplýsingum fyrir Hagstofu Íslands. Upplýsingar um áhugaleikfélög komu frá Bandalagi íslenskra leikfélaga en flokknum tilheyra aðildafélög bandalagsins.

Samstarfsverkefni á milli tveggja eða fleiri leikhúsa og -hópa sem falla undir einhvern þessara þriggja flokka þ.e. leikhús (sviðslistastofnanir), Sjálfstæðu leikhúsin og Bandalag íslenskra leikfélaga, eru aðeins talin einu sinni í samtölum. Gestaleikir og verkefni sem sýnd eru í leikhúsum sviðslistastofnana eða Sjálfstæðu leikhúsanna en eru á vegum eða í samstarfi við aðila sem ekki tilheyra þessum þremur flokkum, eru meðtalin undir þeim flokki leikhúsa þar sem þau voru sýnd.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1281 , netfang Anton.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.