FRÉTT MENNING 10. JÚLÍ 2008

Í tilefni af hinum íslenska safnadegi 13. júlí sendir Hagstofa Íslands nú frá sér tölur um söfn og skylda starfsemi á árunum 1995–2006. Árið 2006 voru starfrækt 158 sýningarstaðir safna, setra, garða og sýninga, samanborið við 97 fyrir áratug. Þessa aukningu má einnig sjá í gestafjölda. Gestir að söfnum og skyldri starfsemi voru ríflega 1,4 milljónir á árinu 2006, eða um 74 hundraðshlutum fleiri en árið 1995 er fjöldi þeirra nam rétt um 830 þúsund. Gestakomur árið 2006 slaga hátt í heildaraðsókn að kvikmyndasýningum, sem var ríflega 1,5 milljónir. Frá árinu 2000 hefur fjöldi gesta að söfnum og skyldri starfsemi aukist jafnt og þétt eftir að hafa staðið að miklu leyti í stað á seinni hluta síðasta áratugar. Svipuðu máli gegnir um fjölda safna og sýningarstaða. Ætla má að aukin aðsókn gesta að söfnum og skyldri starfsemi standi í beinu sambandi við aukið framboð sýningarstaða, aukna fjölbreytni sýninga, fjölgun sýningardaga jafnt að sumri sem að vetri, sem og stórauknum ferðamannastraumi til landsins og um landið.

Gestir árið 2006 voru flestir á söguminjasöfn, öðrum en byggðasöfnum, eða 434 þúsund. Gestir listasafna voru litlu færri, eða 407 þúsund. Fjöldi gesta annarra safna og sýninga voru umtalsvert færri.

Gestir skiptust þannig árið 2006 milli hinna ýmsu flokka safna og skyldrar starfsemi: söguminjasöfn 30%, listasöfn 28%, byggðasöfn 21%, fiskasöfn og dýragarðar 12% og náttúrusöfn 9%.

Gestir eru eðlilega flestir á höfuðborgarsvæðinu (um 786 þúsund manns) er samsvarar um 55 prósent af heildarfjölda gesta á landinu öllu. Hlutdeild höfuðborgarsvæðisins í fjölda gesta hefur dregist talsvert saman frá árinu 1995, er hún var um 71 prósent, á meðan hlutdeild annarra landshluta hefur aukist nokkuð. Hlutdeild landshluta í fjölda gesta að söfnum og skyldri starfsemi var þannig árið 2006: höfuðborgarsvæði 55%, Suðurnes 6%, Vesturland 5%, Vestfirðir 3%, Norðurland vestra 4%, Norðurland eystra 8%, Austurland 5% og Suðurland 14%.

Samfara fjölgun sýningarstaða safna og skyldrar starfsemi hefur tímabundnum sýningum, svonefndum sérsýningum, fjölgað. Árið 2006 voru settar upp 272 sérsýningar samanborið við 107 árið 1997.

Launaður starfskraftur safna og skyldrar starfsemi að sumarlagi árið 2006 var um 700 manns samanborið við 440 árið 1995. Starfsmenn að vetrarlagi eru talsvert færri. Í lok árs 2006 voru þeir 391 talsins, eða 160 fleiri en 1995. Ekki er hér tekið tillit til starfshlutfalls.

Tölur Hagstofunnar um starfsemi safna og skyldrar starfsemi taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna og dýragarða og grasagarða, sem og skyldra sýninga opnum almenningi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.