FRÉTT MENNING 17. JANÚAR 2008

Hagstofa Íslands hefur tekið saman upplýsingar um mannfjölda eftir trúfélögum og sóknum miðað við 1. desember 2007. Nokkrar breytingar hafa orðið á skipan sókna og prestakalla frá fyrra ári. Um þessar breytingar má lesa í skýringum við töflur á vefnum. 

Skráðum trúfélögum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum; skráð trúfélög utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða eru nú 26 en voru 10 árið 1990. Þessum trúfélögum tilheyra 5,4% íbúa, samanborið við 2,3% árið 1990.

Undanfarinn áratug hefur sóknarbörnum í þjóðkirkjunni fækkað hlutfallslega. Hinn 1. desember 2007 voru 80,7% landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna en árið 1990 var þetta hlutfall 92,6%. Á sama tíma hækkaði hlutfall íbúa í fríkirkjusöfnuðunum þremur - Fríkirkjunni í Reykjavík, Óháða söfnuðinum og Fríkirkjunni í Hafnarfirði - úr 3,2% í 4,9%.

Flest trúfélög utan Þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaðanna eru smá og einungis þrjú telja fleiri en 1.000 meðlimi. Kaþólska kirkjan er langfjölmennast þeirra og hefur sóknabörnum hennar fjölgað meira en þrefalt frá árinu 1990 (2.396 samanborið við 7.977 árið 2007). Hvítasunnusöfnuðurinn er næst stærsta trúfélagið utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða. Þar eru meðlimir nú 1.963 samanborið við 898 árið 1990. 

Til óskráðra trúfélaga og með ótilgreind trúarbrögð heyrðu 6,2% þjóðarinnar samanborið við 0,6% árið 1990. Hátt hlutfall þessara einstaklinga eru erlendir ríkisborgarar sem búið hafa hér á landi í stuttan tíma og eiga í sumum tilvikum eftir að skrá sig í trúfélag. Utan trúfélaga voru 2,8% samanborið við 1,3% árið 1990.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.