Samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands var 349 þúsund á síðasta leikári. Það jafngildir því að hver landsmaður hafi séð eina leiksýningu á leikárinu. Áhorfendum á síðasta leikári fækkaði um 68 þúsund frá því á leikárinu á undan, eða um 16 af hundraði. Á síðasta leikári voru færðar á fjalirnar 224 uppfærslur á vegum leikhúsa, leikhópa og leikfélaga, sem sýndar voru 2.176 sinnum.

Heildarfjöldi gesta leikhúsa, leikhópa og félaga á leikárunum 2000/2001– 2011/2012 er sýndur á meðfylgjandi mynd. Inni í tölum um aðsókn eru gestir á sýningar leikhúsa, leikhópa og leikfélaga og á innlendar og erlendar gestasýningar.

 

 

Leikhús
Á síðasta leikári voru starfrækt fimm atvinnuleikhús með aðstöðu í fjórum leikhúsum. Á vegum þeirra voru tíu leiksvið sem rúmuðu 3.596 gesti í sæti. Leikhúsin settu á svið 70 uppfærslur á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Af tegund einstakra verka sem voru færð á fjalirnar voru leikrit flest, eða 39 talsins. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 36, en eftir erlenda 26. Uppfærslur sem samanstóðu af verkum eftir innlenda og erlenda höfunda voru átta. Samanlagður fjöldi sýninga í leikhúsum á síðasta leikári var 1.072, eða litlu fleiri en á fyrra leikári. Sýningargestir í leikhúsum voru 287.172, eða ríflega 26 þúsund fleiri en á fyrra leikári.

Atvinnuleikhópar
Atvinnuleikhópar sem settu upp eina eða fleiri leiksýningu á síðasta leikári voru 61 talsins samanborið við 79 leikárið 2010/2011. Á síðasta leikári settu hóparnir á svið 91 uppfærslu innanlands, þar af voru 17 í samstarfi við leikhúsin. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda voru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa, eða hátt í helmingur allra uppfærsla. Atvinnuleikhópar sýndu innanlands 799 sinnum á leikárinu. Heildaraðsókn að sýningum atvinnuleikhópa á síðasta leikári var 102.753 gestir. Sýningargestum atvinnuleikhópa fækkaði um ríflega fimmtíu þúsund frá næsta leikári á undan.

Áhugaleikfélög
Á næstliðnu leikári færðu 39 áhugaleikfélög á svið 80 leiksýningar víðs vegar um landið. Þrjár af hverjum fjórum uppfærslum voru leikverk eftir innlenda höfunda. Félögin sýndu 531 sinni fyrir 35 þúsund gesti. Gestum að sýningum áhugaleikfélaga fækkaði um átta af hundraði milli leikára.

Um tölurnar
Árleg gagnasöfnun Hagstofunnar um leiksýningar tekur til leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki frá viðkomandi leikhúsum og samtökum atvinnuleikhúsa og áhugaleikfélaga, Sjálfstæðu leikhúsunum og Bandalagi íslenskra leikfélaga.

Talnaefni