FRÉTT MENNING 25. MARS 2009

Samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga nam ríflega 414 þúsundum á síðasta leikári, leikárinu 2007/2008. Þetta samsvarar því að hver landsmaður hafi sótt leiksýningu 1,3 sinnum á leikárinu. Gestum fækkaði nokkuð frá fyrra leikári – leikárinu 2006/2007 – eða um tæplega 25 þúsund gesti, sem samsvarar fækkun gesta um 5,7 af hundraði. Á síðasta leikári voru settar upp á fjalirnar 231 uppfærsla. Sýningar voru 3.339 talsins.

Heildarfjöldi gesta leikhúsa, leikhópa og félaga á leikárunum 2000/2001 til 2007/2008 er sýndur á meðfylgjandi mynd. Tekið skal fram að inni í tölum um aðsókn eru gestir á sýningar í skólum og á innlendar og erlendar gestasýningar. Uppfærslur nemenda eru undanskildar. Þrátt fyrir nokkra fækkun á síðasta leikári hefur fjöldi gesta aukist undangengin ár, en gestir voru tæplega 23 þúsund fleiri á síðasta leikári en við upphaf tímabilsins. Þess má geta að fjöldi gesta á leiksýningum á síðasta leikári nam laust innan við 30 af hundraði af aðsókn að kvikmyndasýningum og gestakomum á söfn og sýningar.


 

Leikhús
Á síðasta leikári voru starfrækt sex atvinnuleikhús með aðstöðu í fimm leikhúsum. Á vegum þeirra voru 12 leiksvið sem rúmuðu 2.798 gesti í sæti. Leikhúsin settu 78 uppfærslur á svið hér innanlands, þar af voru leikrit flest, 46 talsins. Samanlagður fjöldi sýninga var 1.205. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 33, en eftir erlenda 38. Uppfærslur verka eftir innlenda og erlenda höfunda voru sjö. Leikhúsgestir voru samtals 275.207, að meðtöldum samstarfsverkefnum og gestasýningum. Sýningargestum leikhúsanna fjölgaði um ríflega 16 þúsund frá fyrra leikári.

Atvinnuleikhópar
Atvinnuleikhópum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár. Leikhópar sem settu upp eina eða fleiri leiksýningar á síðasta ári voru 39 talsins samanborið við 22 leikárið 2000/2001. Á síðasta leikári settu hóparnir á svið innanlands 84 uppfærslur. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa. Sýningar atvinnuleikhópa innanlands voru 1.925 að meðtöldum sýningum í samstarfi við leikhús og sýningum í skólum. Heildaraðsókn að þessum sýningum var 178.125. Sýningargestum fækkaði um 34 þúsund frá leikárinu 2006/2007.

Áhugaleikfélög
Á næstliðnu leikári færðu 35 áhugaleikfélög upp á fjalirnar 81 leiksýningu víðs vegar um landið. Þrjár af hverjum fjórum uppfærslum voru leikverk eftir innlenda höfunda. Fjölmargir einstaklingar koma að uppfærslum áhugaleikfélaga á ári hverju. Samanlagður fjöldi flytjenda á síðasta leikári var hátt í 1.600 manns. Félögin sýndu 457 sinnum fyrir um 30 þúsund gesti.

Árleg gagnasöfnun Hagstofunnar um leiksýningar tekur til leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki frá viðkomandi leikhúsum og leikhópum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.