FRÉTT MENNING 06. JÚLÍ 2007

Gestafjöldi að söfnum og skyldri starfsemi var um 1,3 milljón á árinu 2005, eða um 60 hundraðshlutum hærri en árið 1995, er fjöldi þeirra var rétt um 830 þúsund. Gestakomur árið 2005 slaga hátt í heildaraðsókn að kvikmyndasýningum, sem  var ríflega 1,4 milljónir. Frá árinu 2000 hefur fjöldi gesta að söfnum og skyldri starfsemi aukist jafnt og þétt eftir að hafa staðið að miklu leyti í stað á seinni hluta síðasta áratugar. Svipuðu gegnir um fjölda safna og sýningarstaða. Frá 1995 til 2005 fjölgaði söfnum og sýningarstöðum sem halda tölu um fjölda gesta úr 87 í 122.

Flestar gestakomur árið 2005 voru að söguminjasöfnum, öðrum en byggðasöfnum, eða ríflega 400 þúsund. Gestum söguminjasafna fjölgaði sýnu mest frá 1995 til ársloka 2005, eða ríflega þrefölduðust. Stendur aukinn fjöldi gesta í beinu hlutfalli við aukinn fjölda sýningarstaða, en hann fast að tvöfaldaðist á árabilinu. Gestakomum hefur fjölgað hægar í öðrum flokkum safna.

Gestir skiptust þannig árið 2005 milli hinna ýmsu flokka safna og skyldrar starfsemi: söguminjasöfn 30%, listasöfn 29%, byggðasöfn 17%, fiskasöfn og dýragarðar 15% og náttúrusöfn 9%.

Árið 2005 voru gestakomur langsamlega flestar á söfn og skylda starfsemi á höfuðborgarsvæðinu, eða um 762 þúsund manns, er samsvarar um 58 prósent af heildarfjölda gesta á landinu öllu. Hlutdeild höfuðborgarsvæðisins í gestafjölda hefur reyndar dregist umtalsvert saman frá árinu 1995, er hún var um 72 prósent. Frá árinu 1995 að telja hefur gestum hlutfallslega fjölgað mest á Suðurlandi og Vesturlandi.

Hlutdeild landshluta í fjölda gesta að söfnum og skyldri starfsemi var þannig árið 2005: höfuðborgarsvæði 58%,  Suðurnes 7%, Vesturland 4%, Vestfirðir 3%, Norðurland vestra 4%, Norðurland eystra 7%, Austurland 5% og Suðurland 11%.
.

Tölur Hagstofunnar um fjölda gesta taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna og dýragarða, sem og fastra sýninga sem halda skrá yfir gestakomur. Önnur söfn og sýningarstaðir eru ótaldir hér. Upplýsingar um fjölda safna og skyldrar starfsemi vísa til þeirra sýningarstaða sem geta gefið upplýsingar um fjölda gesta, en ekki til safna sem rekstrar- eða stjórnsýslueininga.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.