FRÉTT MENNING 27. MARS 2015

Aðsókn á innlenda tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á síðasta ári losaði ríflega 79 þúsund gesti. Það jafngildir því að um fjórðungur landsmanna hafi sótt sinfóníutónleika í fyrra. Þar af voru gestir á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands um 76.500 manns á móti ríflega 2.600 gestum á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Gestafjöldi á innlenda tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur aukist umtalsvert hin síðari ár. Gestir á tónleika hljómsveitarinnar hér innanlands voru hátt í tveimur þriðju fleiri í fyrra en á árinu 2009, en þá hafði fjöldi gesta að mestu staðið í stað um árabil. Fjöldi gesta á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hefur haldist að miklu leyti óbreyttur frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar (sjá mynd 1).

Aukinn fjölda áheyrenda á innlenda tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands má vafalaust skýra að miklu leyti með tilkomu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu þar sem hljómsveitin fékk aðstöðu til æfinga og tónleikahalds þegar húsið hóf starfsemi fyrri hluta árs 2011 og sætaframboð á tónleika hljómsveitarinnar tvöfaldaðist. Viðlíka umsnúningur hefur ekki orðið á gestafjölda á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands með tilkomu Menningarhússins Hofs síðla sumars 2010 enda er hljómsveitin ekki skipuð fastráðnum hljóðfæraleikurum og markaðssvæði hljómsveitarinnar er mun fámennara en Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Á síðasta ári sóttu hátt í 240 þúsund manns almenna tónleika í þeim þremur tónleikahúsum sem starfrækt eru í landinu, það er í Höfi, Hörpu og Salnum. Það jafngildir því að sjö af hverjum tíu landsmönnum hafi sótt tónleika í húsunum á seinasta ári (sjá mynd 2).

Fjöldi tónleikagesta hefur margfaldast samfara fjölgun tónlistarhúsa úr einu árið 2009 í þrjú árið 2011, en mestu munar þar um tilkomu Hörpu. Af tæplega 240 þúsund tónleikagestum í húsunum á síðasta ári voru tilheyrendur á tónleika í Hörpu ríflega 200 þúsund talsins, eða átta af hverjum tíu gestum.

Um tölurnar
Hagstofa Íslands safnar árlega saman tölum um tónleikahald sinfóníuhljómsveita og tónleikahald í tónleikahúsum frá viðkomandi sveitum og húsum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.