Aðsókn að söfnum og tengdri starfsemi á árinu 2011 var ríflega 1,5 milljón gesta. Gestum fækkaði um fimm af hundraði frá fyrra ári, en þá var gestafjöldinn í sögulegu hámarki, eða ríflega 1,6 milljón. Aðsókn að söfnum og skyldri starfsemi er langsamlega mest  á höfuðborgarsvæði, eða um 857 þúsund gestir, sem samsvarar um 56 prósent af fjölda gesta safna árið 2011. Aðsókn að söfnum og sýningum í öðrum landshlutum var mun minni.

 

Frá aldamótum hefur gestum safna og skyldrar starfsemi fjölgað nær árvisst eftir að hafa staðið að miklu leyti í stað á seinni hluta síðasta áratugar 20. aldar. Svipuðu máli gegnir um fjölda safna og sýningarstaða. Ætla má að aukin aðsókn gesta að söfnum og skyldri starfsemi standi í beinu sambandi við aukið framboð sýningarstaða, aukna fjölbreytni sýninga og almennt fjölþættari starfsemi safna, sem og stórauknum ferðamannastraumi til og um landið.

Tölur Hagstofunnar um starfsemi safna og skyldrar starfsemi taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna, dýragarða og grasagarða, sem og skyldra sýninga opnum almenningi sem veita upplýsingar um árlegan fjölda gesta.

Talnaefni