FRÉTT MANNTAL 15. OKTÓBER 2020

Hagstofa Íslands hefur aukið við flokkun hagskýrslusvæða. Skilgreind hafa verið 206 smásvæði með íbúafjölda á milli 900 og 3.500 manns. Svæðaskiptingin er gerð vegna manntalsins 2021, en með henni uppfyllir Hagstofan skilyrði manntalsins um að birta hagskýrslur eftir litlum svæðum. Smásvæðaskiptingin var unnin í samvinnu við Byggðastofnun og studd fjárhagslega af Evrópusambandinu.

Flokkun hagskýrslusvæða er stigskipt flokkunarkerfi þar sem Íslandi er skipt upp í æ smærri hagskýrslusvæði. Ef landið allt er talið sem fyrsta stig þá er með smásvæðaskiptingunni búið að skilgreina fimm stig:

  1. Ísland (NUTS 1 og NUTS 2).
  2. Höfuðborgarsvæði og utan höfuðborgarsvæðis, 2 svæði (NUTS 3).
  3. Hagskýrslusvæði, 4 svæði (Reykjavík, nágrenni Reykjavíkur, Suðursvæði og Norðursvæði).
  4. Talningarsvæði, 42 svæði (13 í Reykjavík, 11 í nágrenni Reykjavíkur og 9 á Suður- og Norðursvæði hvoru um sig).
  5. Smásvæði, 206 svæði (frekari uppskipting á talningarsvæðum).

Stefnt er að því að smásvæðin verði alltaf svipuð að stærð hvað íbúafjölda varðar. Þannig verður svæðum sem verða of fjölmenn skipt upp, en verði þau of fámenn verða þau sameinuð næsta svæði. Ætlunin er að forðast aðrar breytingar eftir fremsta megni.

Við skiptingu talningarsvæðanna í smásvæði var annars vegar reynt að nýta þekkingu sérfræðinga Hagstofunnar og Byggðastofnunar sem og leitað eftir áliti heimamanna hvað varðar smásvæði sem náðu yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Hins vegar var þéttbýlum sveitarfélögum sem skipta þurfti upp í fleiri en tvö smásvæði skipt upp með því að nýta skipulagsreiti (Staðgreini í Reykjavík) sem Míla ehf. lét Hagstofunni góðfúslega í té og raða þeim saman vélrænt þannig að sem lögulegust svæði fengjust sem jafnframt væru innbyrðis lík en ólík hverju öðru hvað varðar tegund íbúðarhúsnæðis.

Með því að nýta skipulagseiningarnar var jafnframt að mestu fylgt meginumferðaræðum, ám eða öðrum fitjum í landslagi sem mikilvæg þykja. Leitað var eftir áliti sveitarfélaganna á skiptingunni og farið eftir athugasemdum sem bárust við lagfæringar á niðurstöðunum.

Gerð hefur verið sérstök útgáfa af smásvæðaskiptingunni til að flokka gögn manntalsins 2011. Smásvæðin eru þar að mestu hin sömu en eru þó 23 færri vegna skilyrða um lágmarks mannfjölda á hverju svæði. Skoða má helstu efnisatriði manntalsins 2011 eftir þessari skiptingu.

Hagstofa Íslands hefur notið aðstoðar frá Landmælingum Íslands við útgáfu þessa en gögnin eru hýst hjá þeim fyrst um sinn.

Verkefnið hefur verið stutt fjárhagslega af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (styrkur nr. 831732).

Hagskýrslusvæði í manntalinu 2021 — greinargerð

Um gögnin
Landfræðigögnum um smávæðin er deilt eins og lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar gera ráð fyrir, það er með opnum stöðlum annars vegar sem lýsigagnaþjónustu sem lýsir gögnunum og hinsvegar skoðunar- og niðurhalsþjónustum sem eru aðgengilegar fyrir landupplýsingakerfi en þær eru einnig aðgengilegar í lýsigögnum.

Manntalið 2011 - landupplýsingagátt LMÍ
Smásvæði 2021 - landupplýsingagátt LMÍ

Nánari upplýsingar vegna vefþjónustu
Smásvæði vegna manntalsins 2021
Smásvæði vegna manntalsins 2011 með tölfræðilegum upplýsingum
WMS-þjónusta LMÍ

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.