FRÉTT MANNFJÖLDI 15. OKTÓBER 2009

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru 69 einstaklingar ættleiddir á Íslandi árið 2008. Þetta er talsvert hærri tala en árið á undan, en þá voru ættleiðingar 51, en það ár áttu sér stað mun færri ættleiðingar en árin á undan. Árið 2008 voru stjúpættleiðingar 46 en frumættleiðingar 23. 

Frumættleiðingar frá útlöndum
Frumættleiðingum frá útlöndum hefur fækkað umtalsvert síðustu þrjú ár, eða síðan þær náðu hámarki árið 2005. Það ár voru frumættleiðingar frá útlöndum fleiri en nokkurt annað ár, alls 41. Af þeim voru 35 börn frá Kína. Árið 2007 voru frumættleiðingar frá útlöndum 18 og 13 árið 2008. Fara þarf aftur til ársins 1998 til að finna færri frumættleiðingar frá útlöndum en árið 2008, en þá voru þær alls 12. Undanfarin ár hafa langflest ættleidd börn verið frá Kína og árið 2008 eru allar 13 frumættleiðingarnar þaðan.

Stjúpættleiðingar
Stjúpættleiðingar árið 2008 voru 46. Það eru fleiri stjúpættleiðingar á einu ári en nokkru sinni fyrr. Líkt og áður var kjörforeldri oftast stjúpfaðir, eða í 34 tilvikum. Í einu tilviki var stjúpmóðir kjörforeldri og 11 einstaklingar í staðfestri samvist ættleiddu barn maka síns.

Með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni (eða kjörbarni) maka umsækjanda. Með hugtakinu frumættleiðing er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.