FRÉTT MANNFJÖLDI 29. OKTÓBER 2008

Hagstofa Íslands hefur sent frá sér hefti í ritröðinni Hagtíðindi um ættleiðingar árin 1990–2007. Þar kemur fram að á þessu 18 ára tímabili voru ættleiðingar 808 talsins. Í 375 tilvikum var um að ræða stjúpættleiðingu en frumættleiðingar voru 433. Frumættleiðingar hérlendis voru 124 en frumættleiðingar frá útlöndum 309. Undanfarin ár hafa langflest ættleidd börn komið frá Kína; frá árinu 2002 hafa 105 stúlkur og þrír drengir verið ættleiddir þaðan. Fyrir þann tíma voru flest börn ættleidd frá Indlandi; þaðan komu 48 drengir og 81 stúlka á árabilinu 1990–2007. Langflest þeirra barna sem frumættleidd eru frá útlöndum eru á fyrsta og öðru aldursári. Meðal frumættleiddra innanlands er aldursdreifingin allt önnur. Einungis fáir þessara einstaklinga voru á fyrsta og öðru ári en 63% yfir lögaldri (eldri en 18 ára). Meðal stjúpættleiddra er þetta hlutfall hærra. Þá hefur meðalaldur stjúpættleiddra hækkað talsvert á undanförnum áratug og segja má að nú heyri til undantekninga að börn undir 12 ára aldri séu stjúpættleidd. Athygli vekur að hér á landi eru konur mun fleiri en karlar í hópi stjúpættleiddra.

Ættleiðingar 1990-2007 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.