FRÉTT MANNFJÖLDI 26. FEBRÚAR 2013

Árið 2012 létust 1.952 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 951 karl og 1.001 kona. Dánartíðni var 6,1 látinn á hverja 1.000 íbúa og lækkaði lítillega frá árinu 2011.

Ungbarnadauði á Íslandi var 1,1 barn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2012 en var 0,9 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2011.

Árið 2012 gátu nýfæddir drengir vænst þess að ná að meðaltali 80,8 ára aldri en stúlkur 83,9 árum. Á fimm ára tímabili, 2006-2010, var meðalævi karla 79,6 ár en kvenna 83,3 ár.

Ungbarnadauði lægstur á Íslandi meðal Evrópuþjóða 2011
Árið 2011 var ungbarnadauði á Íslandi 0,9 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér árið 2011. Næstir Íslandi komu Svíar en þar var ungbarnadauði 2,1 af 1.000 lifandi fæddum. Annars staðar á Norðurlöndum var ungbarnadauði á bilinu 2,4-3,5. Heildarmeðaltal Evrópusambandsríkja ásamt EES-þjóðum var 3,9 fyrir árið 2011. Í Evrópu var ungbarnadauði tíðastur í Kósóvó eða 13,1 af hverjum 1,000 lifandi fæddum.

Íslenskir karlar langlífastir í Evrópu 2011
Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2011 var meðalævilengd íslenskra karla 79,8 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið meðal Evrópuþjóða það ár ásamt Sviss. Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Rússlandi (62,4), Hvíta-Rússlandi (64,0) og Úkraínu (65,7 ár).

Íslenskar konur í sjötta sæti
Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í heiminum en þær hafa dregist nokkuð afturúr stallsystrum sínum í Evrópu á þessari öld. Ástæðan fyrir því er hraðari aukning ævilengdar í nokkrum Evrópulöndum. Árið 2011 var meðalævilengd íslenskra kvenna 83,2 ár og skipuðu þær sjötta sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur í Frakklandi (85,0 ár), Spáni (84,6 ár) og Sviss (84,3 ár). Meðalævilengd evrópskra kvenna er styst í Rússlandi (74,3 ár) og Moldóvu (74,6 ár).


Skýringar
Um er að ræða bráðabirgðatölur yfir dána fyrir árið 2012. Þær verða endurskoðaðar í byrjun september 2013.

Ungbarnadauði er alþjóðleg stöðluð vísitala á dánartíðni barna á fyrsta aldursári. Hún er reiknuð með því að deila fjölda látinna á fyrsta aldursári með fjölda lifandi fæddra í árgangi og margfalda niðurstöðuna með 1.000.

Við samanburð á tölum um ævilengd í Evrópu er rétt að geta þess að íslensku tölurnar fyrir 2011 byggja á útreikningum Eurostat. Tölur fyrir Úkraínu, Georgíu, Króatíu, Tékkland, Belgíu og Ítalíu byggja á gögnum frá árinu 2010. Auk þess byggja tölur fyrir Rússland, Aserbaídsjan og Tyrkland á tölum fyrir 2009.

Ævilengd fyrir árin 2010 og 2011 var endurreiknuð vegna villu í útreikningi. Ævilengd karla færðist úr 79,5 í 79,7 fyrir árið 2010 og úr 79,9 í 80,1 fyrir 2011. Ævilengd kvenna færðist úr 83,5 í 83,7 fyrir árið 2010 og úr 83,6 í 83,8 fyrir 2011.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.