FRÉTT MANNFJÖLDI 18. MARS 2015

Menntunarstig var afar misjafnt eftir talningarsvæðum samkvæmt manntalinu 31. desember 2011. Hlutfall háskólamenntaðra var hæst í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem það fór yfir 50% af þeim sem voru 25 ára eða eldri en lægst á Suðurnesjum án Reykjanesbæjar, þar sem hlutfallið var 12,5% í aldurshópnum. Á höfuðborgarsvæðinu var þetta hlutfall yfir 25% á öllum svæðum nema Efra og neðra Breiðholti þar sem 18,6% íbúa 25 ára og eldri höfðu lokið prófi úr háskóla.

Töluverður munur var á atvinnuþátttöku eftir svæðum í lok árs 2011. Mest var hún í Vatnsenda í Kópavogi, rétt tæplega 80%, en minnst í Laugardalnum í Reykjavík þar sem hún fór undir 65%. Atvinnuleysi var mest í Njarðvíkum, Ásbrú og Höfnum, 14,2%, en minnst í Vestmannaeyjum, 1,9%.

Hlutfall innflytjenda og afkomenda þeirra, þ.e. þeirra sem hvorugt foreldrið er fætt á Íslandi, né heldur afi og amma, var hæst í Efra og neðra Breiðholti þar sem 20% íbúa voru innflytjendur, en lægst var hlutfallið Ofan Brekku á Akureyri eða innan við 3%.

Samkvæmt manntalinu 2011 voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúum eða fleiri. Alls bjuggu 93,8% landsmanna í þéttbýli hinn 31. desember 2011, flestir í Stór-Reykjavík þar sem voru 197.565 íbúar, eða 62,6% landsmanna.

Út eru komin Hagtíðindi um meginniðurstöður manntalsins 2011 eftir svæðum. Í því má finna yfirlit yfir 42 talningarsvæði á landinu, en það er ný svæðaskipting sem sérstaklega var gerð til að gera betur grein fyrir niðurstöðum manntalsins. Í þeirri svæðaskiptingu er stærstu sveitarfélögunum skipt upp en minni sveitarfélög höfð saman um svæði. Að meðaltali eru um 7.500 manns á hverju talningarsvæði.

Manntalið 2011: Meginniðurstöður eftir svæðum – Hagtíðindi

Hagskýrslusvæði í manntalinu 2011 – Hagtíðindi - Greinargerðir

Endurskilgreining Hagstofu Íslands á þéttbýlisstöðum og byggðakjörnum – Hagtíðindi - Greinargerðir

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.