FRÉTT MANNFJÖLDI 21. DESEMBER 2005

Út er komin bókin Manntalið 1703 þrjú hundruð ára. Greinar í tilefni afmælis. Hagstofa Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands standa að útgáfunni og ritstjórar eru sagnfræðingarnir Ólöf Garðarsdóttir deildarstjóri mannfjöldadeildar Hagstofu Íslands og Eiríkur G. Guðmundsson sviðsstjóri upplýsinga- og útgáfusviðs Þjóðskjalasafns Íslands. Manntalið 1703 er stórmerkilegt fyrir margra hluta sakir og fyrir því hafa verið færð rök að það sé hið fyrsta í veröldinni sem hefur að geyma upplýsingar um nöfn, aldur, heimili og stöðu allra þjóðfélagsþegna í einu landi.

Bókin geymir sex endurskoðuð erindi frá málþingi sem haldið var í tilefni þess að 300 ár voru liðin frá framkvæmd manntalsins 1703. Tvær ritgerðanna eru á ensku og fjórar á íslensku. Ritstjórar bókarinnar greina í inngangi frá framkvæmd manntalsins. Þar fjalla þeir um heimildir um mannfjölda í Evrópu frá upphafi nýaldar til 19. aldar og velta því fyrir sér hvernig íslenska manntalið 1703 fellur að þessum heimildum. 

Fyrsta ritgerð bókarinnar, The 1703 Icelandic Census in Perspective, er eftir hinn kunna breska fræðimann John Hajnal. Hajnal tengdist á sínum tíma Cambridge-hópnum svokallaða en fræðimenn í þeim hópi voru helstu brautryðjendur á sviði fjölskyldusögu í Evrópu upp úr 1960. Hajnal hefur notast við niðurstöður manntalsins 1703 í rannsóknum sínum en þekktastur er hann fyrir kenningar sínar um vestur-evrópska hjúskaparmynstrið en það einkennist af háum giftingaraldri og háu hlutfalli einstaklinga sem aldrei giftust. Segja má að Ísland hafi allt fram undir 1870 verið ýktasta dæmið í Evrópu um þetta sérstaka fyrirkomulag. Í ritgerð bókarinnar athugar Hajnal upplýsingar um heimilisstærð í ýmsum manntölum í heiminum, allt frá enskum sóknarmannatölum frá 16. öld og íslenska manntalinu 1703 til manntala í Indlandi frá því um 1950. Hann veltir því fyrir sér hvernig standi á því að fremur lítill munur er á heimilisstærð í ólíkum samfélögum í nútíð og fortíð.

Annar erlendur fræðimaður sem birtir ritgerð í þessu riti er kanadíski sagnfræðingurinn Lisa Dillon. Ekki þarf að koma á óvart að fenginn var Kanadamaður til þess taka þátt í ritun bókar þar sem 300 ára afmælis manntalsins 1703 er minnst, en í frönsku Kanada hafa varðveist nokkur manntöl frá síðari hluta 17. aldar. Í ritgerðinni, Making a Nation. The 1666, 1667 and 1681 Censuses of Québec veltir Dillon því fyrir sér hvort líta megi á elstu kanadísku manntölin sem vísbendingu um vöxt franskrar þjóðarvitundar.

Í ritgerð þeirra Bjarkar Ingimundardóttur og Eiríks Guðmundssonar Manntalið 1703 – Skuggsjá samfélags er fjallað um frumgögn manntalsins 1703. Manntalið 1703 er ólíkt manntölum seinni tíma að því leyti að því fylgdu ekki stöðluð eyðublöð þar sem færðar voru upplýsingar um stöðu einstaklinga. Því er manntalið varðveitt í ýmsum myndum. Höfundar fjalla um skipulag og framkvæmd manntalsins út frá frumgögnum þess og þeim fyrirmælum sem gefin voru. 

Helgi Skúli Kjartansson veltir því fyrir sér hversu áreiðanlegar upplýsingar manntalið birtir um mannfjölda á Íslandi 1703 í ritgerðinni Var Viðey í eyði 1703? Eins og heiti greinarinnar ber með sér veltir Helgi Skúli því fyrir sér hvers vegna íbúa Viðeyjar vanti í manntalið 1703. 

Þau Loftur Guttormsson og Ólöf Garðarsdóttir fjalla um þurfamenn í manntalinu 1703. Ein helsta ástæða einveldisstjórnarinnar fyrir því að láta fara fram manntal á Íslandi 1703 voru kvartanir íslenskra embættismanna yfir bjargarskorti og umkomuleysi mikils hluta alþýðu í kjölfar mikilla harðinda í lok 17. aldar. Því geymir manntalið 1703 afar ítarlegar upplýsingar um þann hluta landsmanna sem ekki gat séð sér farborða upp á eigin spýtur. Höfundar sýna að mikill munur var á hlutfalli þurfamanna eftir sýslum og velta fyrir sér ástæðum þessa munar. Í ritgerðinni er einnig fjallað um þau óljósu mörk sem voru milli ólíkra hópa þurfamanna sem og þurfamanna og annarra hópa í neðstu lögum samfélagsins.

Í ritgerðinni Spáð áfram í píramída notar Gísli Gunnarsson upplýsingar um mannfjölda í manntalinu 1703 til að áætla mannfjölda á síðari hluta 17. aldar til ársins 1735. Gísli reiknar mannfjöldann með tveimur ólíkum aðferðum; annars vegar með aðferð Sameinuðu þjóðanna um framreikning mannfjöldans, hins vegar á grundvelli upplýsinga um fædda og dána í kirkjubókum Reykholtsprestakalls í Borgarfirði.

Manntalið 1703 þrjúhundruð ára

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.