Hinn 1. janúar 2019 voru landsmenn 356.991 og hafði þá fjölgað um 8.541 frá sama tíma árið áður eða um 2,4%. Konum (174.154) fjölgaði um 1,9% og körlum (182.837) fjölgaði um 2,9%. Talsverð fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en íbúum þar fjölgaði um 5.747 í fyrra eða um 2,6%. Hlutfallslega varð þó mest fólksfjölgun á Suðurnesjum, 5,2%. Einnig fjölgaði íbúum á Suðurlandi (3,2%), Austurlandi (2,1%), en minna á Vesturlandi (1,5%), Vestfjörðum (1,0%) og Norðurlandi vestra (0,4%). Hins vegar varð lítilsverð fækkun á Norðurlandi eystra (-0,03%).

Tíu sveitarfélög með yfir 5 þúsund íbúa
Alls voru 72 sveitarfélög á landinu 1. janúar 2019, en það er fækkun um tvö, annars vegar vegna sameiningar Breiðdalshrepps og Fjarðarbyggðar undir nafni þess síðarnefnda, og hins vegar Sandgerðis og sveitarfélagsins Garðs í Suðurnesjabæ. Sveitarfélögin eru misstór. Alls var íbúatala sjö sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 40 sveitarfélögum. Einungis tíu sveitarfélög höfðu yfir 5.000 íbúa.

Í þéttbýli bjuggu rúmlega 330 þúsund íbúar
Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 62 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri og fjölgaði um einn milli ára. Auk þeirra voru 35 smærri staðir með 50–199 íbúa sem er fækkun um tvo frá fyrra ári. Í þéttbýli bjuggu 334.404 íbúar og fjölgaði um 3.845 milli ára. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 22.587 manns hinn 1. janúar síðastliðinn.

Fjölskyldur
Kjarnafjölskyldur voru 83.358 hinn 1. janúar síðastliðinn en 82.102 ári áður. Sjá má skiptingu kjarnafjölskyldna eftir fjölskyldugerð á meðfylgjandi mynd.

Framfærsluhlutfall
Framfærsluhlutfall var 64,9% í ársbyrjun en 65,8% í fyrra. Framfærsluhlutfall er hlutfall ungs fólks (19 ára og yngra) og eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri (20–64 ára). Lækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki á vinnualdri fjölgar hlutfallslega.

Aðferðir
Þéttbýlisstaðir eru skilgreindir óháð byggðakjörnum og þar með sveitarfélagsmörkum. Miðað er við að þéttbýlisstaðurinn hafi skýrt gatnakerfi, sérstakt heiti eða að fjarlægð milli húsa sé ekki meiri en 200 metrar. Þéttbýlisstaðir hafa að lágmarki 200 íbúa og teljast aðeins íbúar þéttbýlisstaða til þéttbýlis.

Lögð hefur verið af sú regla að allt sveitarfélagið, ef um er að ræða kaupstaði, teljist til þéttbýlis, enda er langt um liðið frá því skipting landsins í kaupstaði, kauptún og sveit endurspeglaði raunverulegt þéttbýli. Þá er lögð af sú regla að meira en tveir þriðju íbúa í þéttbýli skyldu hafa atvinnu af öðru en landbúnaði.

Byggðakjarnar eru skilgreindir með sama hætti og þéttbýlisstaðir, nema að því leyti að þeir ná ekki yfir sveitarfélagsmörk og ekki eru sett nein skilyrði um lágmarks mannfjölda. Hagstofan birtir tölur um þá byggðakjarna sem ná 50 íbúum á því tímabili sem birt er.

Til kjarnafjölskyldu teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn hjá þeim 17 ára og yngri, einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 17 ára og yngri.

Talnaefni