FRÉTT MANNFJÖLDI 08. FEBRÚAR 2011

Hinn 1. janúar 2011 voru landsmenn alls 318.452 og hafði fjölgað um 822 frá sama tíma árið 2010. Þetta jafngildir fjölgun landsmanna um 0,3%. Fólksfækkun var á fimm landsvæðum, mest á Vestfjörðum þar sem fækkaði um 225 manns, eða 3,1%. Umtalsverð fólksfækkun var einnig á Suðurnesjum, Austurlandi og Suðurlandi , en á Norðurlandi vestra fækkaði um einn íbúa. Fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu, en þar voru íbúar 1.434 fleiri 1. janúar 2011 en fyrir ári. Það jafngildir 0,7% fjölgun íbúa á einu ári. Fólki fjölgaði einnig á Norðurlandi eystra, um 106 einstaklinga (0,4%), og lítilsháttar fjölgun (9 manns) var á Vesturlandi.

Sveitarfélög og byggðakjarnar
Hinn 1. janúar 2011 voru alls 76 sveitarfélög á landinu og hafði þeim fækkað um eitt frá fyrra ári eftir sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar í nýtt sveitarfélag, Hörgársveit. Íbúatala hins nýja sveitarfélags var 600 hinn 1. janúar 2011. Alls var íbúatala fimm sveitarfélaga undir 100, en undir 1.000 í 43 sveitarfélögum.

Í útgefnu efni bætist að þessu sinni við einn byggðakjarni sem ekki hefur verið gerð grein fyrir áður. Um er að ræða Brautarholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Íbúatala byggðakjarnans var 52 hinn 1. janúar 2011.

Framfærsluhlutfall og kjarnafjölskyldur
Framfærsluhlutfall var 68,1% í ársbyrjun 2011 en var 67,8% ári áður. Framfærsluhlutfall er annars vegar hlutfall ungs fólks (20 ára og yngra) af fólki á vinnualdri (20–64 ára) og hins vegar hlutfall eldra fólks (64 ára og eldra) af fólki á vinnualdri. Hækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki fækkar á vinnualdri.

Kjarnafjölskyldur voru 77.370 hinn 1. janúar 2011 en 77.227 ári áður. Hinn 1. janúar voru 3.843 einstaklingar í hjónabandi en ekki í samvistum við maka. Hér er um að ræða einstaklinga sem skilið hafa að borði og sæng og hjónabönd þar sem annar makinn hefur flutt lögheimili sitt til útlanda. Nokkuð hefur fjölgað í þessum hópi á síðustu tveimur árum miðað við undanfarin ár.

Mannfjöldi eftir landsvæðum 1. janúar 2010 og 2011
Fjölgun/fækkun
frá  Hlutfallsleg skipting
  2010 2011 fyrra ári (%) 2010 2011
Alls 317.630 318.452 0,3 100,0 100,0
Höfuðborgarsvæði 200.907 202.341 0,7 63,3 63,5
Suðurnes 21.359 21.088 -1,3 6,7 6,6
Vesturland 15.370 15.379 0,1 4,8 4,8
Vestfirðir 7.362 7.137 -3,1 2,3 2,2
Norðurland vestra 7.394 7.393 0,0 2,3 2,3
Norðurland eystra 28.900 29.006 0,4 9,1 9,1
Austurland 12.459 12.306 -1,2 3,9 3,9
Suðurland 23.879 23.802 -0,3 7,5 7,5

Nánari grein fyrir búsetuþróun og  breytingum á mannfjöldanum verður gerð í Hagtíðindum sem áætlað er að gefa út 29. mars n.k.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.