Hagstofa Íslands hefur birt mannfjöldaspá fyrir tímabilið 2016-2065 sem gerir grein fyrir áætlaðri stærð og samsetningu mannfjölda í framtíðinni. Spáin er byggð á tölfræðilíkönum fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni.

Samkvæmt miðspánni er má ætla að íbúar verði 442 þúsund árið 2065 bæði vegna fólksflutninga og náttúrulegrar fjölgunar. Til samanburðar var mannfjöldinn 332 þúsund 1. janúar 2016. Í háspánni verða íbúar 523 þúsund í lok spátímabilsins en 369 þúsund samkvæmt lágspánni.

Spáafbrigðin byggja á mismunandi forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga.

Fæddir verða fleiri en dánir á hverju ári spátímabilsins í mið- og háspá. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2044. Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2016 geta vænst þess að verða 83,6 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,6 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2065 geta vænst þess að verða 88,6 ára en drengir 84,3 ára.

Samkvæmt spánni verður fjöldi aðfluttra hærri en fjöldi brottfluttra ár hvert, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslendingar sem flytja frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytja til landsins. Skammtímaspá um búferlaflutninga er byggð á reiknilíkönum tímaraða sem nota efnahagslega og lýðfræðilega þætti. Mynd 2 sýnir öll afbrigði flutningsjöfnuðar (fjöldi aðfluttra umfram brottflutta á hverju ári) og öryggisbil miðspárinnar.

Gert er ráð fyrir eftirfarandi breytingum á samsetningu mannfjöldans:

  • Hlutfall 65 ára og eldri fer yfir 20% af heildarmannfjölda árið 2035 og yfir 25% árið 2061.
  • Frá árinu 2049 verða þeir sem eru 65 ára eða eldri í fyrsta sinni fjölmennari en þeir sem eru yngri en tvítugir.

Breyting á aldurssamsetningu mannfjöldans sést mjög vel þegar litið er á aldurspíramídann í upphafi og lok spátímabilsins. Mynd 3 sýnir aldurssamsetningu árin 2016 og 2065 samkvæmt miðspánni.

Þótt þjóðin sé að eldast og fólksfjölgun verði fremur hæg þá eru Íslendingar nú, og verða enn um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Árið 2060 verður meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga.

Mannfjöldaspá 2016-2065  - Hagtíðindi

Talnaefni