FRÉTT MANNFJÖLDI 02. FEBRÚAR 2023

Í ársbyrjun 2023 voru tíu algengustu einnöfnin og fyrstu eiginnöfnin þau sömu og árið 2018. Hjá körlum var Jón algengasta nafnið, þá Sigurður og svo Guðmundur. Af kvenmannsnöfnum var Anna algengast, þá Guðrún og svo Kristín. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðrúnu er steypt af stóli sem algengasta eiginnafn kvenna. Tíu algengustu karlmannsnöfnin hafa verið þau sömu frá 2018.

Flestir landsmenn bera fleiri en eitt nafn. Í ársbyrjun 2023 voru þrjár algengustu samsetningarnar hjá körlum Jón Þór, Gunnar Þór og Arnar Freyr. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin fimm árum fyrr með þeirri undantekningu að Arnar Freyr kom upp í þriðja sætið á kostnað Jóns Inga. Hjá konum voru þrjár algengustu samsetningarnar Anna María, Anna Kristín og Anna Margrét. Þetta voru líka þrjú algengustu tvínefnin árið 2018.

Aron og Emilía vinsælustu eiginnöfn nýfæddra árið 2021
Jón og Anna komust hins vegar ekki á blað þegar horft er til vinsælustu nafna nýfæddra árið 2021. Aron var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á árinu 2021 en þar á eftir Jökull og Alexander. Emilía var vinsælasta stúlkunafnið en þar á eftir Embla og Sara. Þór var langvinsælasta annað eiginnafnið hjá drengjum en þar á eftir Freyr og Máni. Rós var vinsælasta annað eiginnafnið hjá stúlkum. Á eftir þeim kom stúlkunafnið Björk og Ósk sem vinsælasta annað eiginnafn nýfæddra stúlkna.

Algengara að börn fæðist að sumri og hausti en yfir vetrarmánuðina
Afmælisdagar á Íslandi dreifast ekki jafnt yfir árið. Algengara er að börn fæðist að sumri og á hausti en yfir vetrarmánuðina, frá október og fram í mars. Alls eru 51,5% allra afmælisdaga á tímabilinu frá apríl til september. Í upphafi árs 2023 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn 1. janúar, alls 1.246 einstaklingar. Fæstir áttu afmæli á hlaupársdag, 29. febrúar, eða 234 einstaklingar. Næst kemur jóladagur (780) og aðfangadagur (861).

Talnaefni
Nöfn
Afmælisdagar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.