Aron var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á árinu 2010 en Emilía vinsælasta stúlkunafnið. Emilía tók við af Önnu sem féll niður í 4.-6. sæti, en Aron tók við af Alexander sem nú situr í 6.-9. sæti.

Flestum nýfæddum börnum var gefið fleiri en eitt nafn árið 2010. Þór var langvinsælasta millinafnið hjá drengjum, en þar á eftir Freyr og Logi. María var vinsælasta millinafnið hjá stúlkum ásamt Ósk, en þessi nöfn hafa vermt fyrsta og annað sætið undanfarin ár. Á eftir þeim kom stúlkunafnið Rós sem þriðja vinsælasta millinafn nýfæddra stúlkna.

Þegar litið er á allan mannfjöldann í ársbyrjun 2011 eru 10 vinsælustu einnefnin og fyrstu eiginnöfnin alveg þau sömu og árið 2006. Hjá körlum er Jón vinsælasta nafnið, þá Sigurður og svo Guðmundur. 10 algengustu nöfnin hafa verið þau sömu frá 2006 nema hvað Kristján er nú í 7. sæti í stað Magnúsar. Af kvenmannsnöfnum er Guðrún vinsælast, þá Anna og svo Sigríður.

Flestir landsmenn bera fleiri en eitt nafn. Árið 2010 voru þrjár vinsælustu samsetningarnar hjá körlum Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin árið 2006. Hjá konum voru þrjár vinsælustu samsetningarnar Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín. Þetta voru líka algengustu tvínefnin árið 2006. Kvenmannsnafnið Anna er hins vegar afar vinsælt sem fyrra nafn , en hún reyndist fyrra nafnið í sex af 10 algengustu tvínefnunum.

Afmælisdagar á Íslandi dreifast ekki jafnt yfir árið. Algengast er að börn fæðist að sumri og á hausti. Fæstir eiga afmæli á vetrarmánuðum, frá október og fram í mars. Í upphafi árs 2011 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn 27. september 2011, alls 989 einstaklingar. Fæstir áttu afmælisdag á jóladag, 657, og næstfæstir á gamlársdag, 702. Annar í jólum og aðfangadagur eru einnig sjaldgæfir afmælisdagar. Árið 2011 voru 207 einstaklingar án afmælisdags, en þeir halda upp á hann fjórða hvert ár hinn 29. febrúar, þegar hlaupár er.

Mannanöfn
Afmælisdagar