FRÉTT MANNFJÖLDI 01. OKTÓBER 2012

Hagstofa Íslands hefur unnið greinargerð þar sem fjallað er um nauðsyn þess að afmarka á nýjan hátt íslensk hagskýrslusvæði á héraðsstjórnarstigi. Hagstofan hefur frá stofnun skipt landinu í sex til átta hagskýrslusvæði, en sú skipting hefur valdið nokkrum vandkvæðum við hagskýrslugerð, einkum vegna ójafnvægis í fólksfjölda á milli landsvæða. Þá vinnur Hagstofan að manntali um þessar mundir, en það hefur ýtt undir þörfina fyrir nýja skiptingu landsins í hagskýrslusvæði.

Í skýslunni er gerð grein fyrir þeim viðmiðum sem liggja þurfa til grundvallar nýrri afmörkun landsvæða til notkunar fyrir hagskýrslugerð og nokkrir ólíkir kostir landshlutaskiptingar mátaðir við viðmiðin. Farið er stuttlega yfir þær grunneiningar sem liggja að baki svæðaskiptingum sem hér á landi eru í flestum tilvikum sveitarfélög. Þá er gefið sögulegt yfirlit yfir afmörkun landsvæða á Íslandi sem og yfirlit yfir umdæmi innan íslenskrar stjórnsýslu. Ekki er í skýrslunni tekin afstaða til þess hvaða valkostur henti best, heldur er henni ætlað að vera innlegg í umræðu um heppilegustu landsvæðaskiptinguna á héraðsstjórnarstigi.

Gert er ráð fyrir að ákvörðun um nýtt fyrirkomulag hagskýrslusvæða liggi fyrir eigi síðar en í ársbyrjun 2013.

Íslensk hagskýrslusvæði á héraðsstjórnarstigi - skýrsla

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.