FRÉTT MANNFJÖLDI 04. FEBRÚAR 2020

Mikill meirihluti landsmanna býr í dag í þéttbýli, eða 95%, en í byrjun síðustu aldar var raunin hins vegar talsvert önnur þegar sama hlutfall var einungis tæplega fjórðungur eða 24%. Breytingin er síðan enn meiri sé farið aðeins lengra aftur í tímann og miðað við árið 1880 en þá var hlutfall þeirra sem bjuggu í þéttbýli aðeins 11%. Þessi gríðarlega breyting sést vel myndrænt á myndritinu hér fyrir neðan.

Fjöldi þeirra sem byggðu landið var á þeim tíma eðli málsins samkvæmt mun minni en hann er í dag og byggðakjarnar að sama skapi færri. Þannig voru þeir sem bjuggu í þéttbýli árið 1880 um 8.600 manns í 47 byggðakjörnum, bæði smáum og stórum, en um 64.000 manns í strjálbýli sem í flestum tilfellum voru bæir í sveit. Fram til aldamóta 1900 var þéttbýlismyndun nokkuð hröð sem sést á því að íbúum í alls 66 þéttbýliskjörnum hafði þá fjölgað í 18.800. Á sama tíma hafði íbúum í stjálbýli fækkað að höfðatölu, voru þá komnir niður í 59.400, og hlutfallið orðið 76% af landsmönnum. Þegar kom fram á árið 1922 var svo komið að meirihluti landsmanna bjó í þéttbýliskjörnum en þá voru þéttbýliskjarnarnir 74 að tölu.

Miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi felast á bak við þessar tölur sem m.a. fólu í sér búferlaflutninga úr sveitum landsins til þéttbýlisstaða viðs vegar um land jafnhliða umbreytingu atvinnulífsins frá landbúnaði, sem aðalatvinnuvegar landsmanna í gegnum aldirnar, yfir í sjávarútveg, iðnað og þjónustu.

Þessar mannfjöldabreytingar og þróun atvinnulífs héldu svo áfram næstu áratugina og árið 1982 var svo komið að rúmlega 90% landsmanna bjuggu í þéttbýli, eða 212.400 manns, og var fjöldi þéttbýliskjarna kominn í 101. Þar með var tala íbúa í strjálbýli komin undir 10% mörkin og íbúafjöldinn þar um 23.000. Á síðustu áratugum hefur þróunin haldist áfram hægt og bítandi og eru þéttbýlisbúar í dag um 95% landsmanna (í 106 þéttbýliskjörnum) á móti 5% íbúum sem búa í strjálbýli.

Rekja má þessar breytingar á búsetu landsmanna fyrir einstaka byggðarkjarna á vef sögulegra hagtalna sem Hagstofa Íslands birtir í nýrri endurskoðun á áður birtri veftöflu um sama efni. Þá er einnig að finna samandregin yfirlit um sama efni með flokkunum á fjölda byggðakjarna eftir íbúatölu þeirra á hverjum tíma.

Ítarefni
Löng hefð er fyrir birtingu Hagstofunnar á árlegum tölum um fjölda íbúa í þéttbýli víðs vegar um landið. Fáar reglur hafa gilt um slíka skráningu og í mörgum tilvikum skortir nægilegar heimildir til að halda slíkri skýrslugerð í föstu skorðum. Því eru gjarnan birtar tölur um svokallaða „þéttbýliskjarna“ til aðgreiningar frá annarri landfræðilegri og lögformlegri afmörkun íbúanna niður á t.d. sveitarfélög, verslunarstaði, kauptún, kaupstaði o.s.frv. Þá má geta þess að hugtakið „byggðarkjarni“ hvílir á íslenskri úrvinnsluhefð og kemur ekki í stað alþjóðlegrar skilgreiningar á hugtakinu „þéttbýli“ og „þéttbýlisstig“ við úrvinnslu mannfjöldatalna. Tölur um byggðarkjarna fylgja búsetuþróun í nánu samspili við nærsamfélagið á hverjum stað og hvernig íbúarnir skilgreina byggð sína og gefa henni nafn.

Árið 1997 birti Hagstofan tölur í ritinu Hagskinna um þéttbýliskjarna á tímabilinu 1889-1990. Var þá farið bæði eftir því sem hagskýrslur greindu frá en jafnframt var tekið tillit til niðurstaðna fræðimanna þar sem opinberar heimildir skorti.

Frá þeim tíma að Hagskinna kom út og til okkar tíma hafa komið út fjölmörg byggðasögurit og greinar sem bætt hafa þekkinguna á því hvernig þróun einstakra sveitarfélaga og byggðarlaga hefur verið háttað. Er mikill fengur í þessum byggðasögurannsóknum, einkum á fyrstu áratugum þéttbýlisþróunar á Íslandi eða á síðari hluta 19. aldar og á fyrstu áratugum 20. aldar. Þessi rit skipta mörgum tugum og er afar misjafnt hvernig höfundar nálgast mat á íbúaþróun á hverjum stað. Hagstofan tilgreinir því ekki hvernig hvert og eitt þessara rita hefur áhrif íbúatölur fyrir einstök ár í veftöflunni um þróun byggðakjarna á landinu öllu alveg frá 1880 til okkar tíma.

Þrátt fyrir þessar viðbætur fræðimanna til íslenskrar byggðasögu hefur Hagstofan þurft að setja fram áætlanir og jafnvel tilgátur um þróun einstakra byggðarlaga í því skyni að draga upp heildarmynd af búsetu landsmanna bæði í þéttbýliskjörnum og í strjálbýli á sama landsvæði. Má halda því fram að hér sé lagður fram tilgátugrunnur um þróun einstakra byggðakjarna um allt land en hafa ber í huga að þessar tölur geta breyst eftir því sem þekkingu okkar vindur fram um fyrstu áratugi þéttbýlismyndunar á Íslandi. Hér hefur Hagstofan þó fylgt þeirri meginreglu að opinberar heildartölur fyrir landið í heild, sýslur og landsvæði eru óbreyttar að öðru leyti en því að afmörkun umdæma kann að taka breytingum svo samræmis sé gætt yfir allt tímabilið sem taflan nær til. Slíkt á þó ekki að hafa áhrif á íbúatölur einstakra byggðakjarna.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.