FRÉTT MANNFJÖLDI 02. FEBRÚAR 2018

Fullveldisafmæli

Í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands ætlar Hagstofan að birta fréttir á árinu með sögulegu efni sem tengist fullveldistímanum. Hagstofan opnaði vef með sögulegum hagtölum 1. desember 2017 en þar er hægt að finna samfelldar tímaraðir í nokkrum efnisflokkum eins langt aftur og heimildir leyfa.

Skráning fæddra barna á Íslandi nær aftur til 18. aldar þegar prestum var skylt að halda prestþjónustubækur með upplýsingum um sóknarbörn sín. Í sumum sóknum hefur skráning íbúa verið haldin allt frá ofanverðri 17. öld.

Heildstæð gögn um fæðingar eru til frá 1838, en það ár var fjöldi lifandi fæddra barna 1.851. Á fullveldisárinu 1918 voru lifandi fædd börn alls 2.441 og árið 2016 voru þau 4.034. Samkvæmt bráðabirgðatölum fæddust um 4.060 börn  árið 2017.

Flest börn fæddust árið 2009
Fæðingar voru flestar árið 2009 en það er eina árið í sögu Íslands þegar fjöldi lifandi fæddra barna var yfir fimm þúsund. Það ár fæddust alls 5.026 börn, 2.561 drengur og 2.465 stúlkur. Næstflest börn fæddust nærri hálfri öld fyrr, árið 1960, alls 4.916. Að jafnaði fæðast fleiri drengir en stúlkur á ári hverju en átta sinnum á tímabilinu frá 1918 til 2017 fæddust fleiri stúlkur en drengir.

Fleiri fædd börn en minni frjósemi
Þó að tala lifandi fæddra barna sé tvöfalt hærri nú en árið 1838 fæðast mun færri börn á hverja konu nú á dögum. Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Fullveldisárið var fjöldi lifandi fæddra barna á hverja konu um 3,8 og var sá fjöldi einkennandi fyrir íslenskt samfélag á þeim árum.

Á millistríðsárunum urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi, meðal annars í atvinnulífi og íbúafjölda í þéttbýli. Ástæður þess að frjósemi sveiflast milli tímabila eru flóknar, en kröftug minnkun frjósemi á millistríðsárunum og að sama skapi hröð aukning árin 1940–1960 eru sterkt einkenni í mannfjöldaþróun 20. aldar.

Árið 1939 var frjósemin komin niður í 2,7 börn á hverja konu en náði svo hámarki árið 1960 með 4,3 börnum á hverja konu. Undanfarin ár hefur frjósemi á Íslandi mælst rétt undir 2,0 en það er nálægt þeirri tölu sem lýsir þeirri stöðu þegar vaxtarmegin þjóðarinnar er nálægt jafnvægi.

Meiri frjósemi hér á eftirstríðsárunum en í flestum löndum Vestur-Evrópu
Frjósemishlutfall á Íslandi á fullveldistímanum fram á tíunda áratug 20. aldar var með því hæsta í Evrópu. Víðast hvar í álfunni jókst frjósemi á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hérlendis jókst hún á stríðsárunum og á eftirstríðsárunum jókst hún meira hér en í flestum löndum Vestur-Evrópu. Almennt séð er frjósemishlutfallið nokkuð hátt í Norður-Evrópu miðað við lönd sunnar í álfunni.

Frjósemi í Danmörku og Svíþjóð á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var mun minni en á Íslandi. Með minnkandi frjósemi hér á landi á undanförnum árum hefur dregið verulega saman með þjóðunum og svo virðist sem sérstaða Íslands sem frjósöm þjóð sé liðin undir lok. Til marks um þessar breytingar var meiri frjósemi árið 2016 í Danmörku og Svíþjóð en á Íslandi.

Aldur mæðra
Minni frjósemi er nátengd hækkandi meðalaldri mæðra. Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar var meðalaldur kvenna sem fæddu sitt fyrsta barn um 22 ár. Eftir það hækkaði meðalaldurinn og árið 1986 var hann kominn í 23,3 ár og 27,7 ár árið 2016. Ef litið er til helstu aldursflokka mæðra sést að á fullveldistímanum hafa mikil umskipti átt sér stað þegar til lengri tíma er litið en einnig var um tímabundnar breytingar að ræða sem skiptu máli.

Á fyrstu áratugum fullveldisins, á millistríðsárunum, var fæðingatíðni mæðra á þrítugs- og fertugsaldri svipuð. Þetta gerbreyttist á tímabilinu frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar og fram til 1960 þegar fæðingartíðni var hæst hjá mæðrum undir þrítugu. Þetta tímabil hafði einnig þá sérstöðu að barnsfæðingar mæðra undir tvítugu voru sérstaklega áberandi og náði þessi þróun hámarki árið 1966 en tók að dala hratt eftir það. Ástæðurnar má að hluta rekja til þess að ungar konur sóttu sér aukna menntun í skólum landsins og aukin atvinnuþátttaka kvenna skiptir hér máli. Eftir 1985 jókst fæðingatíðni kvenna sem eignuðust börn á aldrinum 30–39 ára og síðustu ár er fæðingartíðni í aldurshópunum 20–29 ára og 30–39 ára mjög svipuð.

Fæðingartíðni á fullveldistímanum

 Sögulegar hagtölur — sérvefur

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.