FRÉTT MANNFJÖLDI 10. SEPTEMBER 2010

Árið 2009 fæddust 5.027 börn hérlendis, 2.561 drengur og 2.466 stúlkur. Það eru 192 fleiri börn en ári áður, en þá fæddust hér 4.835 börn. Aldrei áður hafa fleiri lifandi fædd börn komið í heiminn á einu ári. Áður fæddust flest börn árið 1960 þegar 4.916 börn fæddust og árið 1959 þegar 4.837 börn litu dagsins ljós.

Fjölmennustu fæðingarárgangar Íslandssögunar
Röð Ár Lifandi fæddir alls Drengir Stúlkur Frjósemi
1 2009 5.027 2.561 2.466 2,22
2 1960 4.916 2.547 2.369 4,27
3 1959 4.837 2.501 2.336 4,24
4 2008 4.835 2.470 2.365 2,14
5 1963 4.820 2.471 2.349 3,98
6 1964 4.787 2.375 2.412 3,86
7 1990 4.768 2.431 2.337 2,31
8 1957 4.725 2.469 2.256 4,20
9 1965 4.721 2.450 2.271 3,71
10 1962 4.711 2.410 2.301 3,98

Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2009 var frjósemi íslenskra kvenna hærri en árið 2008, eða 2,22 börn á ævi hverrar konu en 2,14 börn árið 2008. Yfirleitt er miðað við að frjósemin þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Undanfarin ár hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um 2 börn á ævi hverrar konu. Árið 2008 fór hún í fyrsta sinn síðan 1996 yfir 2,1 barn. Þó er frjósemin ekki nema helmingur frjóseminnar í kringum 1960, en þá gat hver kona vænst þess að eignast rúmlega 4 börn á ævi sinni.

 

Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Íslandi fæddist í hjónabandi árið 2009 (35,6%). Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, en þá var það 36,5%. Frá 1961 til 1996 lækkaði hlutfall þeirra barna sem fæddust í hjónabandi úr 74,3 % niður í 36,5% á sama tíma og hlutfall þeirra barna sem fæddust í óvígðri sambúð jókst úr 13,4% í 50,9%. Það hlutfall er óbreytt árið 2009 (48,8%). Hlutfall barna sem fæðast utan sambúðar eða hjónabands er því hlutfallslega nokkuð svipað og það var á árunum 1961-1965. Þá fæddust 12,4% allra barna utan hjónabands eða sambúðar en voru 15,6% árið 2009.

 

Hvort barn fæðist innan eða utan hjónabands fer mikið eftir því hvar í systkinaröðinni það er. Árið 2009 fæddist um fimmtungur frumburða (20,8%) innan hjónabands og 55,4% frumburða móður áttu foreldra í óvígðri sambúð. Áberandi flest börn mæðra sem ekki voru í hjónabandi eða sambúð voru fyrsta barn; foreldrar 23,8% fyrsta barns voru ekki í sambúð, samanborið við 11,0% foreldra annars barns, 8,1% þriðja barns og 12,9% fjórða barns eða fleiri.

 

Eftir því sem aftar dregur í fæðingarröðinni fjölgar börnum sem fæðast innan hjónabands en börnum sem eiga foreldra í óvígðri sambúð fækkar að sama skapi. Foreldrar annars barns móður voru í 37,6%  tilvika giftir árið 2009 og 51,4% í óvígðri sambúð, en við fæðingu þriðja barns hafa hlutföllin algjörlega snúist við og voru 55,5% foreldra giftir og 36,5% í óvígðri sambúð. Árið 2009 fæddust 2.006 börn sem voru frumburðir móður, 1.702 börn voru annað barn móður, 993 þriðja barn og 326 fjórða barn og síðara. Þetta er sama hlutfall og hefur verið síðustu ár, að meðaltali árin 2001-2005 eru 39,5% barna frumburðir móður, 34,9% annað barn móður, 18,7% þriðja barn og 6,9% fjórða barn og síðara.

Aðferðir
Sú breyting hefur átt sér stað í aðferðum Hagstofu Íslands að börn fædd erlendis en með lögheimili á Íslandi eru talin með fæðingum en hafa frá árinu 1990 verið talin til aðfluttra. Árið 2009 var hér um 47 börn að ræða.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.